Aukið afskiptaleysi

Greinar

Vaxandi afskiptaleysi fólks af slysum og ofbeldisverkum er angi breytinga á þjóðfélaginu, ein af skuggahliðum þess, að ópersónulegt þéttbýlissamfélag leysir persónulegt strjálbýlissamfélag af hólmi. Í stað þess að allir skipti sér af öllum, skiptir enginn sér af neinum.

Sama fólkið hagar sér á misjafnan hátt eftir því, hvort það er statt í fjölmenni eða í fámenni. Fólk kemur öðrum til hjálpar í einrúmi, en lætur kyrrt liggja, ef það sér aðra verða vitni að sams konar atburðum. Fálætið er ekki innbyggt, heldur fer oft eftir aðstæðum hverju sinni.

Hætta er á ferðum, þegar glæpamenn gera ráð fyrir að geta stundað fíkniefnasölu eða ofbeldi í fjölmenni án afskipta annarra aðila. Þegar samhjálp borgaranna fer að bila, er hætt við, að glæpahringir taki völd á þeim svæðum, þar sem afskiptaleysi almennings er mest.

Til að hamla gegn glæpum í fátækrahverfum erlendis hefur með góðum árangri verið gripið til þess ráðs að útvega eftirlaunafólki íbúðir með góðu útsýni yfir götur. Fíkniefnasala og ofbeldi á erfiðar uppdráttar í umhverfi, þar sem borgarar vaka hver yfir hagsmunum annars.

Löggæzlumenn og sveitarstjórnir geta hvatt til samstarfs fólks um nágrannavörzlu á viðkvæmum stöðum og kennt fólki að láta lögregluna vita símleiðis án þess að leggja sjálft sig í hættu. Útbreidd notkun þráðlausra síma auðveldar slíka nágrannavörzlu.

Þetta nær svipuðum árangri og myndavélar, sem settar hafa verið og settar verða upp á afbrotasvæðum miðborga, þar sem lítið er um, að fólk á bak við glugga verði vitni að atburðum. Þjóðfélagið verður að halda uppi slíkum vörnum á tímum vaxandi ópersónuleika.

Ekki eru allir reiðubúnir að bretta upp ermar og lenda í átökum. Með áróðri má hvetja vegfarendur til að nota bílsíma og gemsa til að koma upplýsingum á framfæri við rétta aðila, án þess að fólk leggi sig sjálft í hættu við að hafa bein afskipti af atburðum, sem það sér.

Erlendis gengur flóttinn inn í afskiptaleysið sums staðar svo langt, að efnafólk reisir sér heimili í afgirtum hverfum með varðmönnum og sækir vinnu í afgirta skrifstofuturna með varðmönnum, en innri og fátækari borgarhverfi lúta óformlegri stjórn glæpamanna.

Þjóðfélagsbreytingar kalla á aukna fræðslu um skyldur borgaranna hver við annan. Foreldrar, sem aldir eru upp í annars konar þjóðfélagi, eru margir hverjir vanbúnir að fræða börn sín um þetta. Skólakerfið hefur ekki áttað sig á þessari nýju þörf, en getur gert það.

Skyldur borgara hver við annan ná lengra en til nauðsynlegustu varna gegn útbreiðslu ofbeldis og annarrar lögleysu. Borgaralegt þjóðfélag leggur líka þær skyldur á herðar öllum, að þeir hafi almennt afskipti af öðrum málum en sínum eigin, þar á meðal pólitískum.

Lýðræðiskerfi nútímans stenzt ekki til lengdar, ef afskiptaleysi þéttbýlisins heldur innreið sína í stjórnmálin. Ef menn hætta að líta á það sem skyldu sína að hafa afskipti af opinberum málum, taka mafíósar völdin í pólitíkinni eins og á götum fátækrahverfa.

Áhuga- og afskiptaleysi af opinberum málum, öðrum en hreinni hagsmunagæzlu, fer vaxandi meðal ungs fólks. Minna en áður er um, að ungt fólk reyni að bæta umheiminn, en meira um, að það reyni að laga sig að ytri aðstæðum eins og þær eru hverju sinni.

Eitt af lykilorðum nútímans er afskiptaleysi, afleiðing breyttra þjóðfélagshátta, en ekki endilega óhjákvæmileg afleiðing þeirra, ef vörnum verður við komið.

Jónas Kristjánsson

DV