Aukið sjónvarp

Greinar

Eitt af því, sem gæta þarf við nýtingu á nýjum geira ljósvakans til aukins sjónvarps, er kostnaður við móttöku rása á geiranum. Æskilegt er, að notendur geti notað sama loftnetið við að taka við þeim 23 rásum, sem rúmast á geiranum, og sama afruglarann til að ná myndinni.

Þetta þýðir, að rétthöfum rásanna ber að koma sér saman um sendingarstað og afruglunarkerfi, jafnvel þótt þeir standi að öðru leyti í samkeppni. Sameiginlegt afruglunarkerfi kemur alls ekki í veg fyrir, að hver rétthafi fyrir sig geti haft eigin læsingar á sínu efni.

Annað brýnt atriði er, að ekki sé mörgum af þessum 23 rásum fórnað til að senda samhliða fleiri en eina útsendingu af sömu gervihnattarásinni. Mikilvægt er að nýta sem bezt hvern þann geira ljósvakans, sem bætist við, því að mikill kostnaður fylgir hverjum nýjum geira.

Þetta þýðir, að þeir rétthafar rásanna, sem hyggjast nota þær að einhverju leyti til viðstöðulauss endurvarps efnis frá gervihnöttum, ættu að koma sér saman um þetta endurvarp. Sameiginlegt endurvarp kemur ekki í veg fyrir samkeppni í eigin dagskrám rétthafanna.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að ekki sé fórnað rásum til að raka dreifarnar, það er að ná til skuggasvæða á Faxaflóasvæðinu. Til þess að fullnýta rásirnar 23 er skynsamlegt að nota kapal til að koma efninu til þessara svæða í stað þess að taka þrjár rásir undir hverja sendingu.

Þetta er rökrétt afleiðing þess, að geirinn, sem senn verður tekinn í notkun, er stundum kallaður “kapall í lofti”. Líta ber á hann sem eins konar ódýran kapal, sem ekki er fullkomin lausn og getur kallað á hefðbundinn kapal í jörð til uppfyllingar á skuggasvæðum geislans.

Þetta þýðir, að rétthafar rásanna ættu að koma sér saman um lagningu hefðbundins kapals um skuggasvæðin, þegar komið hefur í ljós, hver þau eru. Þetta þriðja atriði er eins og fyrri atriðin tvö fyrst og fremst þjóðhagslegt sparnaðar- og hagvæmnisatriði, sem hafa ber í huga.

Með því að nýta rásirnar 23 sem bezt er hægt að gera skömmtunina til rétthafanna sem minnsta. Forðast ber mistökin frá núverandi sjónvarpsgeira, sem er illa nýttur og hefur komið á fót tvíokun Ríkisútvarpsins og Íslenzka sjónvarpsfélagsins í aðgangi að núverandi loftnetum.

Þegar geiri springur, verður mismunun milli rétthafa. Þeir, sem ekki komast fyrir á eldri geira, verða að fara yfir þann þröskuld, að notendur hafa ekki móttökubúnað. Þeir rétthafar, sem fara á nýjan geira, hafa því snöggtum lakari aðstöðu en þeir, sem eru á gamla geiranum.

Þetta þýðir ekki aðeins, að nýta ber hvern nýjan geira sem bezt, heldur einnig, að hver nýr geiri er verðminni en þeir, sem fyrir eru í notkun. Þetta skiptir máli, ef stjórnvöld taka upp þá nýju stefnu að selja eða leigja réttinn til að nota ljósvakann til sjónvarps.

Slík stefnubreyting er hugsanleg, alveg eins og stjórnvöld gætu farið að selja eða leigja aðgang að fiskimiðunum, sem eru miklu takmarkaðri auðlind en ljósvakinn í loftinu. Slíkt væri pólitísk ákvörðun, sem yrði þá að beita af víðsýni og réttlæti og til eflingar samkeppni.

Ef sú verður niðurstaðan, er rétt að verðleggja núverandi sjónvarpsgeira Ríkisútvarpsins og Íslenzka sjónvarpsfélagsins margfalt dýrar en geirann, sem nú hefur verið ákveðið að opna. Þegar þriðji geirinn verður síðar opnaður, ber að verðleggja hann enn lægra en hina fyrri.

Atriðin, sem hér hafa verið nefnd, eru viðráðanleg. Hinn nýi sjónvarpsgeiri getur því farið vel af stað og orðið til að auka fjölbreytni sjónvarpskosta almennings.

Jónas Kristjánsson

DV