Aukin alræðisárátta.

Greinar

Í hvert sinn sem nýr höfðingi sezt að völdum í Sovétríkjunum fær óskhyggja manna á Vesturlöndum nýja útrás. Fjallað er um, að hinn nýi maður sé ef til vill hinn bezti karl, tæknilega og hagfræðilega sinnaður, taki brauð fram yfir skriðdreka og sé jafnvel vel kvæntur.

Gorbatsjov hinn nýi hefur það fram yfir Andropov að vera ekki með blóðuga fortíð frá innrásinni í Ungverjaland og yfirstjórn sovézku leyniþjónustunnar. Þar með fylgir ekki, að hann sé eitthvert gæðablóð, sem muni stuðla að mannréttindum og friði í heiminum.

Þegar er komið í ljós, að Gorbatsjov beitir Austur-Evrópu meiri hörku en fyrirrennarar hans gerðu. Það kom greinilega fram á síðasta fundi efnahagsbandalagsins Comecon. Þar fékk hann hærra verð fyrir sovézkar afurðir og lægra verð fyrir afurðir leppríkjanna.

Ennfremur hefur sannleiksmálgagnið Pravda hert gagnrýnina á austurevrópsk frávik frá sovézkum rétttrúnaði í efnahagsmálum. Þar eru fordæmdar tilraunir Ungverja og annarra til að beita markaðslögmálum í smáum stíl. Brezhnev, Andropov og Tsjernenko voru þó öllu frjálslyndari.

Verra er, að Gorbatsjov hefur hert villimennsku Rauða hersins í Afganistan. Þjóðarmorðið er stundað skipulegar en nokkru sinni fyrr. Konum, börnum og gamalmennum er slátrað í stórum stíl, þorp jöfnuð við jörðu og gróðri eytt. Pyndingar eru hrottalegri en annars staðar.

Heima fyrir bendir ekkert til, að Gorbatsjov muni slaka hið minnsta á klónni. Hann er á móti öllum frávikum. Það lýsir sér ekki aðeins í herferð gegn slóðaskap í atvinnulífinu, heldur einnig í auknum ofsóknum gegn öllum þeim, sem ekki eru nákvæmlega á hans línu.

Enn hefur fækkað þeim, sem fá að flytjast úr landi, og haldið er áfram ofsóknum gegn þeim, sem biðja um slíkt. Einnig hefur aukizt harkan við andófsmenn á borð við Sakharov. Hún kemur meðal annars fram í, að umheimurinn veit mánuðum saman ekki, hvort hann er lífs eða liðinn.

Að baki aukinnar hörku gagnvart Austur-Evrópu, Afganistan og íbúum Sovétríkjanna er líklega meiri árátta Gorbatsjov en fyrirrennara hans að ráða öllu sjálfur. Þessi sama árátta kemur fram í hreinsunum á valdatindinum. Gromyko er sparkað upp og Romanov út, en jámenn settir inn.

Þessi fyrsta reynsla af Gorbatsjov lofar ekki góðu. Alræðisárátta af þessu tagi hefur tilhneigingu til að magnast í alræðisskipulagi, svo sem sást á Stalínstímanum. Á Vesturlöndum eru slíkir menn hreinsaðir út í kosningum, en þar eystra ríkja þeir fram í andlátið.

Gagnvart Vesturlöndum mun Gorbatsjov reynast slægur prins í stíl Macchiavelli. Hann hefur þegar reynzt brosmildur og gamansamur í umgengni. Hann er heimsmannlegur í fasi og klæðnaði eins og eiginkonan. Friðarklerkar og friðarkerlingar af báðum kynjum munu dá nýju fötin keisarans.

Öfugt við Reagan Bandaríkjaforseta, sem geltir hátt og bítur lítið, er Gorbatsjov af þeirri tegund, sem geltir lágt og bítur mikið. Á skömmu valdaskeiði hans hefur ofbeldishneigð Kremlar aukizt gagnvart Austur-Evrópu, Afganistan og íbúum Sovétríkjanna.

Engin ástæða er til að ætla, að leiðtogi, sem er alræðishneigðari en Tsjernenko, Andropov og Brezhnev, reynist Vesturlöndum sáttfúsari en fyrirrennararnir. Meiri líkur eru á, að sovézka kröfuharkan í samningum, sem áður var takmarkalítil, verði næsta takmarkalaus.

Jónas Kristjánsson

DV