Aukin ofbeit í ár

Greinar

Búast má við, að afréttir Íslands taki seint við sér að þessu sinni og verði venju fremur viðkvæmir í sumar. En þjóðlið íslenzkra ofbeitarmanna mun ekki spyrja að slíkum vanda, heldur senda tvær milljónir af ríkisreknu sauðfé á fjall, svo sem það er vant að gera.

Gróður á hálendinu hefur farið minnkandi frá upphafi sauðfjárhalds á Íslandi allt til þessa dags. En sumarið 1989 verður sennilega ár óvenjulega mikillar hnignunar gróðurs. Það minnir okkur á, hversu harður er fjöturinn, sem landbúnaðurinn ríður þjóðinni.

Það er ekki nóg með, að efnahagslegri framtíð þjóðarinnar er fórnað á altari óhugnanlega fjárfreks ríkisrekstrar á landbúnaði. Þar á ofan eru þessir árlegu milljarðar notaðir til að ræna og rupla náttúru Íslands og breyta landinu í eyðimörk sands og grjóts.

Því miður er skipan landverndar miðuð við hagsmuni ofbeitarmanna. Landgræðslustjóri virðist líta á hlutverk sitt að framleiða beitiland. Hann kærir ekki einu sinni, þegar ofbeitarmenn hleypa fé á ólöglegum tíma á land, sem honum hefur verið trúað fyrir.

Hvað eftir annað hefur komið fram, að landgræðslustjóri ver sjónarmið ofbeitarmanna og reynir að gera lítið út vandanum. Hann varpar sökinni á eldgos og árferði, alveg eins og slíkt hafi ekki þekkzt fyrir landnám, þegar Ísland var viði vaxið milli fjalls og fjöru.

Það er ekki að furða, þótt árangur sé lítill. Talið er, að landgræðslan græði árlega um 2000 hektara lands, en missi á móti 3000 hektara út í veður og vind. Árlegt gróðurtap nemur 1000 hekturum á ári og verður meira að þessu sinni, af því að ofbeit verður í meira lagi.

Þegar Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra missti út úr sér í vetur, að íslenzka þjóðin ætti ekki að greiða niður gróðureyðinguna, ætluðu umboðsmenn ofbeitarmanna vitlausir að verða. Talsmenn allra stjórnmálaflokka risu upp á Alþingi og fordæmdu sannleikann ákaflega.

Að mati allra stjórnmálaflokka er ófyrirgefanlegt að segja, að ofbeit sé fremsta orsök gróðureyðingar Íslands. Þeir segja það illviljaða árás á bændur, sem sæmi ekki öðrum en “léttgeggjuðum smákrötum”. Náttúra landsins á sér fáa raunverulega málsvara á Alþingi.

Brýnt er orðið að friða algerlega töluverðan hluta af hálendi Íslands fyrir ágangi búfjár. Það er einkum móbergssvæðið í Gullbringu-, Árnes-, Rangárvalla- og Þingeyjarsýslum, svo og uppland Húnavatnssýslu og Skagafjarðar, sem þarf að girða af svo fljótt sem auðið er.

Takmarkið á að vera, að heiðar Íslands verði aftur eins blómlegar og þær voru á þeim tíma, er eldgos og árferði voru ein um hituna, án aðstoðar sauðfjár. Takmarkið á að vera, að þær verði aftur eins blómlegar og Hornstrandir eru orðnar eftir brottför sauðfjárins.

Stefna alfriðunar ætti sem fyrst að leysa af hólmi hina gagnslausu baráttu, sem felst í að dreifa úr flugvél matvælum ofan í sauðfé. Við sáum bezt í örlögum þjóðargjafarinnar frá 1974, hvernig núverandi landgræðslustefna er notuð til að siga meira sauðfé á landið.

Friðun afrétta bjargar ekki aðeins náttúru landsins og snýr gróðurvernd í sókn, heldur bjargar hún einnig fjárhag þjóðarinnar, sem núna er sligaður af meira eða minna sjálfvirkum greiðslum til að halda úti hefðbundinni rányrkju landbúnaðarins á afréttum landsins.

Þetta kalda vor má minna kjósendur á að fara að velja sér umbjóðendur, sem liggja ekki jafnflatir fyrir ofbeitinni og stjórnmálamenn landsins gera nú.

Jónas Kristjánsson

DV