Aukin óvissa í Rússlandi

Greinar

Sigur Jeltsíns í forsetakosningunum í Rússlandi er hvorki neinn sigur lýðræðisins þar í landi né merki þess, að traust stjórnmála- og efnahagsástand verði í landinu. Sigurinn hefur þvert á móti í för með sér framhald á óstjórn og tilheyrandi einræðistilhneigingum.

Enginn þeirra þriggja frambjóðenda, sem lengst náðu í forsetakosningunum, getur talizt neinn lýðræðissinni og markaðsbúskaparmaður á vestræna vísu. Sá fulltrúi slíkra sjónarmiða, sem lengst komst í fyrri umferð kosninganna, fékk ekki nema 7% atkvæða kjósenda.

Jeltsín hefur gróflega misnotað forsetavaldið til að tryggja endurkjör sitt. Hann beitti ríkisfjölmiðlunum óspart í sína þágu í kosningabaráttunni og rústaði fjárhag ríkisins í umfangsmiklum atkvæðaveiðum. Hvort tveggja gefur eftirmönnum hans afar slæmt fordæmi.

Í tíð Jeltsíns hefur land ekki verið með lögum byggt, svo sem tíðkast á Vesturlöndum, heldur hefur hann stjórnað með tilskipunum að austrænum hætti. Tilskipanir hafa verið tilviljanakenndar, hafa stangazt hver á annarrar horn eða hafa hreinlega dagað uppi.

Önnur jákvæða fréttin frá Moskvu barst milli tveggja umferða kosninganna. Það var brottrekstur nokkurra harðlínumanna úr hirð Jeltsíns og endurreisn hagfræðingsins Tsjúbai, sem er síðasti Móhíkaninn úr sveit vestrænt hugsandi manna í föruneyti forsetans.

Hin jákvæða fréttin barst eftir síðari umferðina. Það var tilkynning Jeltsíns um, að Tsjernomyrdin forsætisráðherra mundi halda embætti sínu. Það er fremur traustur miðjumaður, sem gerir enga stóra hluti og reynir af varfærni að halda sjó í lífsins ólgusjó.

Hafa verður þó í huga, að Tsjernomyrdin hefur lítinn skilning á vestrænu markaðshagkerfi og að Tsjúbai hefur ekki fengið ráðherraembætti að nýju. Því má reikna með, að afturhvarfið frá vestrænum markaðsbúskap verði ekki hægara en það hefur verið að undanförnu.

Til að tryggja sig í síðari umferð kosninganna fékk Jeltsín til liðs við sig hershöfðingjann Alexander Lebed, sem náði þriðja sæti í fyrri umferðinni. Lebed er núna orðinn öryggisráðherra og einn valdamesti maður ríkisins. Hann á eftir að valda vandræðum.

Lebed minnir á suðurameríska einræðisherra úr röðum herforingja. Hann ber ekki gramm af skynbragði á efnahagsmál og gefur lítið fyrir kjaftavaðalinn og seinvirknina, sem oftast fylgir lýðræði. Hann er fullur fordóma og hefur lýst ímugust á vestrænni menningu.

Ekki eru horfur á, að Jeltsín geti hamið þennan hættulega bandamann sinn. Jeltsín er heilsulaus, svo sem títt er um rússneska ofdrykkjumenn á hans aldrei. Hann er langtímum saman frá störfum eða kemur fram þrútinn af drykkju eða náfölur og stífur af veikindum.

Ef Jeltsín fellur frá, er Tsjernomyrdin formlega séð eftirmaður hans. Hins vegar má búast við, að valdshyggjumaður á borð við Lebed reyni að nota millibilsástandið til að sölsa undir sig aukin völd. Það væri mjög í stíl valdafíkinna hershöfðingja í þriðja heiminum.

Kosningaúrslitin í Rússlandi sýna fyrst og fremst, að almenningur hefur algerlega hafnað vestrænum umbótum. Afturhvarfið var raunar byrjað á síðustu misserum fyrra kjörtímabils Jeltsíns og mun halda áfram á næsta kjörtímabili undir áhrifum Tsjernomyrdins og Lebeds.

Einkum marka kosningaúrslitin aukna óvissu og örari tilskipanir, svo sem oft má sjá, er valdafíknir hirðmenn berjast um að stýra hendi fárveiks foringja.

Jónas Kristjánsson

DV