Aumt er Ísland

Greinar

Ísland er eina vestræna ríkið, sem ekki hefur skrifað undir Kyoto-bókunina um takmörkun á losun efna, sem valda loftslagsbreytingum. Bandaríkin urðu fyrir helgina síðust annarra ríkja til að undirritað bókunina og skilja Ísland eitt eftir í yfirlýstum flokki sóða.

Vegna erfiðra samskipta framkvæmdavalds og löggjafarvalds í Bandaríkjunum er líklegt, að forseti þeirra treystist ekki til að knýja undirritunina gegnum þingið fyrr en að liðnum næstu kosningum eftir tvö ár. Tímann mun hann nota til að undirbúa framkvæmdina.

Tregða Íslands stafar ekki af ósanngjarnri meðferð áhugamála landsins á alþjóðafundum í Kyoto og Buenos Aires um loftmengun. Samkvæmt Kyoto-bókuninni má Ísland auka losun mengunarefna lítillega, þótt önnur vestræn ríki taki á sig að minnka hana hjá sér.

Tregða Íslands stafar ekki af minni möguleikum okkar en annarra á að draga úr mengun. Við getum endurskoðað stefnu okkar í stærð og afli fiskiskipa og veiðarfæra. Við getum einnig unnið að breyttri orkunotkun skipavéla yfir í hreinni olíu og síðar yfir í vetni.

Við getum fylgzt betur með tilraunum til að taka upp nýja orkugjafa í bílum, svo sem vetni eða rafmagn. Síðast en ekki sízt þurfum við að reikna upp á nýtt kostnaðar- og tekjudæmi stóriðju, þannig að við teljum okkur ekki lengur trú um, að öll stóriðja sé arðbær.

Orkuver og orkuveitur valda umhverfisspjöllum, sem við þurfum að reikna gjaldamegin í dæminu vegna skaðlegra áhrifa þeirra á ferðaþjónustu, sem er miklu arðvænlegri búgrein heldur en stóriðjan og veitir margfalt fleira fólki vinnu á hvern milljarð í fjárfestingu.

Verðið fyrir orku til stóriðju hefur alltaf verið lágt og er svo óhagstætt í nýjustu samningum, að það er ríkisleyndarmál. Við megum ekki vita, hvað rafmagnið kostar til nýja álversins við Grundartanga og við megum ekki vita, hvað Norsk Hydro fæst til að borga.

Vegna verðsveiflna eru stóriðjuver og einkum álver svo áhættusöm fjárfesting, að erlendis hafa sum hver snögglega orðið gjaldþrota og skilið orkusala og starfsmenn eftir með sárt ennið. Minni rekstrareiningar eiga auðveldara með að mæta sveiflum í umhverfinu.

Ástæðan fyrir því, að ríkisstjórnin, undir forustu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, berst svo hart gegn aðild að Kyoto-bókuninni, er draumurinn um risavaxið álver Norsk Hydro á Austurlandi, sem mun valda mikilli mengun og eyðileggja náttúruperlur.

Sérstaða Íslands gegn Kyoto-bókuninni er orðin óþægilega áberandi eftir að Bandaríkin skrifuðu undir hana. Ísland er skyndilega komið í sviðsljósið sem mesti sóðinn meðal vestrænna ríkja og mun verða að taka langvinnum afleiðingum af illu umtali umheimsins.

Sérstaðan skaðar hagsmuni okkar í ferðaþjónustu og sjávarútvegi á svipaðan hátt og sjálfseyðingarhugsjón hvalveiða mun gera, ef hún verður að veruleika. Við eigum á hættu, að öflugir hópar á sviði umhverfismála beini geiri sínum gegn íslenzkum hagsmunum.

Miklu hagkvæmara væri fyrir okkur að taka forustu í sjónarmiðum umhverfisverndar og afla okkur ímyndar sjálfbærrar umgengni við auðlindir sjávar og lands, meðal annars í samræmi við tillögur Orra Vigfússonar hjá Laxveiðisjóði Norður-Atlantshafsins.

Því miður er okkur stjórnað af þröngsýnum búrum, sem eru svo fastir í flórnum, að þeir sjá ekki ljósið og halda áfram að skaða umhverfi okkar og efnahag.

Jónas Kristjánsson

DV