Íslendingar ættu rúmlega 20 milljörðum króna meira sparifé á þessu ári og skulduðu útlendingum sennilega mörgum milljörðum minna, ef raunvextir hefðu fengið að dafna hér í lengri tíma en heimilað hefur verið af stjórnmálamönnum, sem eru fangar eigin lýðskrums.
Guðmundur Magnússon, fyrrum háskólarektor, benti nýlega í erindi á nokkrar slíkar tölur. Rétt fyrir upphaf verðtryggingar, árið 1978, nam sparnaður Íslendinga 19% af þjóðarframleiðslu. Eftir eins áratugar verðtryggingu hafði sparnaðurinn aukizt í 34% árið 1987.
Þetta þýðir, að innlent fjármagn, sem er til ráðstöfunar handa þeim, er hungrar og þyrstir í lán, er ekki 38 milljarðar, eins og verið hefði við óbreytt ástand, heldur 68 milljarðar. Verðtrygging og raunvextir hafa fært þjóðinni 30 milljarða króna aukasparnað á áratug.
Ef raunvextir hefðu ekki fæðst í skjóli Ólafslaga, væri annaðhvort 30 milljörðum minna til útlána um þessar mundir eða þjóðin skuldaði útlendingum 30 milljörðum meira. Sennilega hefði tjónið skipzt tiltölulega jafnt milli fjársveltis og erlendrar skuldasöfnunar.
Þótt skynsemin hafi fengið að ráða í einn áratug, erum enn töluvert á eftir iðnaðarþjóðum heims, þar sem raunvextir hafa lengur haft frið fyrir handafli stjórnmála manna. Við höfum aukið sparnað úr 19% í 34%, en aðrir eru með sparnað á bilinu 4045% og Japanir með 50%.
Munurinn á okkur og þessum samanburðarþjóðum er rúmir 20 milljarðar króna. Það er sparifé, sem við höfum ekki, en hefðum, ef við hefðum búið við raunvexti í nokkru lengri tíma en frá Ólafslögum. Það eru peningar, sem margir vildu fá að láni, ef til væru.
Ef sjóðahönnuðir stjórnmálanna leyfðu auralausri þjóðinni að halda óbreyttum raunvöxtum, mundum við á nokkrum árum komast í meira en 40% sparnað eins og hinar þjóðirnar. Þá mundu rúmlega 20 milljarðar bætast við innlendan sparnað og nýtast til athafna.
Aukinn innlendur sparnaður hefur einkum þrenns konar gildi. Í fyrsta lagi gerir hann kleift að grynna á erlendum skuldum, sem flestir viðurkenna, að eru orðnar of miklar. Annars vegar færir hann þjóðinni aukið fé til að mæta hinni miklu lánsfjárþörf í landinu.
Ekki skiptir þriðja atriðið minnstu máli. Það er, að aukinn sparnaður til jafns við aðrar þjóðir færir okkur nær langþráðu markmiði jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar lánsfjár. Það er hornsteinn þess, að raunvextir geti lækkað á nýjan leik án handafls.
Athyglisvert er, að stjórnmálamenn, sem sjá ofsjónum yfir verðtryggingu og raunvöxtum til þeirra innlendu aðila, sem þeir á ögurstundu kalla fjármagnseigendur og jafnvel okurkarla, eru meira en fúsir að láta þjóðina borga raunvexti til útlanda í staðinn.
Skiljanlegt er, að formaður Alþýðubandalagsins telji henta sér að hóta svokölluðum fjármagnseigendum öllu illu. Hann er að leika ljúfa tónlist fyrir öfundsjúku miðstéttarhópana, sem eftir eru í stuðningsliði flokksins, síðan alþýðufylgið hvarf til Kvennalistans.
Dapurlegra er fyrir formann Framsóknarflokksins að sitja yfir höfuðsvörðum stefnunnar, sem forveri hans bar gæfu til að koma til framkvæmda fyrir áratug. En Ólafur Jóhannesson var stjórnmálamaður, en ekki lukkuriddari á borð við þá, sem nú ráða ríkjum hér.
Ömurlegast er þó fyrir hagfræðing á borð við banka- og sjóðaráðherra Alþýðuflokksins að bera ábyrgð á vaxtahandafli, sem stórskaðar auralausa sjóðaþjóð.
Jónas Kristjánsson
DV