Austfjörðum skipt upp

Greinar

Olíufélögin þrjú eru farin að skipta landinu milli sín með því að hliðra hvert fyrir öðru á Austfjörðum. Þannig hefur þeim fækkað úr þremur í eitt á Vopnafirði, í Neskaupstað, á Eskifirði og á Fáskrúðsfirði. Á hverjum stað situr eftir félagið, sem þar hefur mesta veltu.

Augljóst er, að þjónusta við neytendur minnkar, þegar olíufélögum fækkar úr þremur í eitt. Þetta er eitt af helztu lögmálum markaðarins og kemur ekkert við því, hvort ráðamenn félaganna séu góðir í sér eða ekki. Olíufélögin eru að auka leti sína á kostnað neytenda.

Samkvæmt lögmálum markaðarins eru olíufélögin ekki að hagræða með þessu. Þau eru þvert á móti að spara sér hagræðingu með því að koma upp einokun á fleiri stöðum á landinu. Með einokun þurfa þau ekki að gæta sama aðhalds í rekstri og þau þyrftu ella að gera.

Olíufélögin hafa komið á fót einokun á fjórum stöðum á Austfjörðum, þrátt fyrir vaxandi umræðu um fáokun félaganna og einokunarhneigð þeirra. Það segir þá sögu, að forráðamenn þeirra hafa ekki umtalsverðar áhyggjur af umræðunni og telja sig munu geta gengið enn lengra.

Vegna eignarhalds Olíufélagsins í Olíuverzluninni er tæpast unnt að tala um, að félögin séu meira en tvö og hálft hér á landi. Þau reka aðeins tvö dreifikerfi og aðeins eina heildsölu á gasi. Samráð þeirra eru víðtæk og hafa farið ört vaxandi, svo sem sést á Austfjörðum.

Með óbeinni aðstoð Samkeppnisstofnunar komu þau í veg fyrir, að kanadískt olíufélag haslaði sér völl hér á landi. Eini opinberi aðilinn, sem reyndi að verja heilbrigða samkeppni við það tækifæri var Reykjavíkurborg, sem lofaði kanadíska félaginu benzínstöðvalóðum.

Fyrir daga Reykjavíkurlistans höguðu félögin sér eins og þau ættu borgina. Sem dæmi um það má nefna benzínstöð Skeljungs í Öskjuhlíð, sem átti að grafa inn í landið, svo að hún skyggði ekki á það. Voldug, gul ljósarönd á súlum tryggir hins vegar, að stöðin æpir í landslaginu.

Borgin gerði ekkert við þessu augljósa broti á skilmálum, enda lifir Sjálfstæðisflokkurinn á peningum frá fyrirtækjum á borð við olíufélögin. Raunar má líta á fleiri stjórnmálaflokka sem pólitískan arm þeirra fyrirtækja, sem standa undir miklum hallarekstri flokkanna.

Skýrasta dæmið um samráð olíufélaganna gegn hagsmunum neytenda, gegn hagræðinu og gegn heilbrigðri samkeppni er verðið á benzíni, sem er eitt og hið sama hjá félögunum öllum. Tölfræðilega er útilokað, að slíkt geti gerzt, án þess að um náin samráð sé að ræða.

Samkeppnisstofnun hefur hingað til ekki lagt til atlögu við þennan einokunarhring. Hún er langtímum saman að fúska við skoðun á benzínverði og getur ekki svarað fyrirspurnum um, hvar á vegi sú skoðun sé. Hún er einfaldlega hrædd við pólitísk völd olíufélaganna.

Þjóðhagsleg áhrif samráðs olíufélaganna eru, að þau þurfa ekki að megra sig í heilbrigðri samkeppni, heldur fita reksturinn í skjóli fáokunar og einokunar. Þannig verður framleiðni olíuverzlunar minni en hún væri ella. Þetta hefur neikvæð áhrif á landsframleiðnina í heild.

Sorglegast við þetta er, að það er þjóðin sem hefur valið sér það ástand í olíuverzlun, sem hún á skilið. Þjóðin styður til dæmis stjórnmálaflokka, sem neita að birta reikninga sína, af því að þar kemur fram, að þeir lifa að mestu á stórfyrirtækjum á borð við olíufélögin.

Olíusala á Íslandi er þáttur í vítahring umfangsmikils spillingarvefs, sem ekki fengi staðizt, ef íslenzkir kjósendur væru ekki kúgaðir og værukærir aumingjar.

Jónas Kristjánsson

DV