Austur-Indíafélagið

Veitingar

Ekta etnísk Asía
****

Austur-Indíafélagið við hlið Regnbogans í Hverfisgötu er undantekning frá reglunni, ekta veitingahús með etnísku sniði. Þú finnur það strax og þú pantar grillað poppadum-hrökkbrauð og raita-jógúrt grænmetiskryddaða meðan þú hyggst skoða matseðilinn. Það er eins og að vera kominn á gott indverskt veitingahús í London eða Dehli. Hér er sérstaklega gott að slaka á og láta sér líða vel. Slíka tilfinningu færðu ekki á öðrum asískum stað í Reykjavík.

Staðurinn hefur lækkað í verði, kominn í verð ítalskra staða í Reykjavík. Forréttir kosta að meðaltali 1300 krónur og aðalréttir 2300 krónur, sem hlýtur hér að teljast frambærilegt. Hann er líka orðinn einfaldari og kaldari en áður. Loftslæður eru horfnar, svo og gluggatjöld, kannski eru þau í hreinsun. Í stað glerplatna á borðum er nú kominn fallegur harðviður. Nýlegir tágastólar eru þægilegir. Pappírsþurrkur eru svo þykkar, að þær minna á tau.

Þjónusta er indversk og fín, líður áfram í notalegheitum. Hún færir þér hefðbundinn tandúrí jógúrtkryddaðan kjúkling, kryddleginn í koríander, kúmeni og garam masala kryddblöndu, sem einnig er búin til úr koríander og kúmeni. Kjúklingurinn kom á borðið snarkandi heitur á pönnu úr leirofni, hálfur kjúklingur, aðeins meira eldaður en þörf krefur, ekki farinn að þorna enn. Þetta er algengasti réttur indverskra veitingahúsa í London.

Með honum er fínt að borða ofnsteiktar nan-flatkökur, afar mjúkar. Ennfremur pulau-hrísgjrón krydduð með grænmeti og kryddjurtum, snöggtum betri en hvítu hrísgrjón asísku staðanna. Pulau er nokkuð, sem fólk pantar sjálfkrafa á svona stað, rétt eins og nan, poppadum og raita, einkennistákn indverskrar matreiðslu, eins og við þekkjum hana á Vesturlöndum. Hafa verður þó í huga, að Indland er nánast heimsálfa með ótal tilbrigðum í matreiðslu.

Fiskur er ekki á boðstólum, utan lax. Flestir réttirnir eru úr kjúklingi, sem hentar norður-indverskri matreiðslu vel. Einnig eru nokkrir lambakjöts- og grænmetisréttir. Allt er þetta mismunandi sterkt, yfirleitt bakað í indverskum leirofni. Kjúkling má til dæmis fá kryddaðan með chili, engifer, hvítlauk, bukksmára og fenniku, eða þá með lauki, kókos, sinnepsfræjum og chili. Allt fremur spennandi og lystugar útgáfur, sem gaman er að prófa.

Jónas Kristjánsson

DV