Austurríki tapaði

Greinar

Austurríki tapaði í síðari umferð forsetakosninga landsins um helgina. Austurríkismenn kusu sér forseta, sem hefur reynzt ósannsögull í meira lagi og á þess ekki kost að verða boðinn í margar opinberar heimsóknir til útlanda. Hann verður baggi á landinu.

Í Bandaríkjunum er uppi öflug hreyfing meðal þingmanna um að hindra, að Waldheim komi þangað. Ætla þeir að setja hann á skrá yfir óæskilega útlendinga. Gyðingar eru fjölmennir í Bandaríkjunum og munu þeir ekki láta sitt eftir liggja í þessari baráttu.

Í mörgum löndum Evrópu minnast menn nasismans með lítilli gleði. Það veldur því, að til dæmis Hollendingar vilja hvorki sjá né heyra Waldheim. Svipaða sögu má sennilega segja af Dönum og fleiri þjóðum, sem áttu um sárt að binda í síðari heimsstyrjöldinni.

Þar með er ekki sagt, að Waldheim hafi verið staðinn að stríðsglæpum. Ekkert slíkt hefur sannazt á hann. Hins vegar er ljóst, að hann hefur að minnsta kosti orðið var við, að félagar hans í þýzka hernum stunduðu hrottalegar hreinsanir á Balkanskaga.

Á síðustu mánuðum hefur Waldheim orðið að afklæðast hverri spjörinni á fætur annarri. Fyrst hélt hann því fram, að hann hefði ekki verið í SA-sveitum nasista, en varð síðan að játa, að hann hefði talið sig neyddan til þess, svo að hann hefði ekki verra af.

Fyrst hélt Waldheim fram, að hann hefði hætt í stríðinu árið 1942, þegar hann hafði særzt á austurvígstöðvunum. Síðan varð hann að játa, að hann hefði eftir það tekið þátt í baráttunni gegn skæruliðum í Júgóslavíu og Grikklandi og ofsóknum á hendur gyðingum.

Einnig hefur komið í ljós, að doktorsritgerðin, sem Waldheim varði á stríðsárunum, var full af nasistarugli. Fróðir menn telja, að hún sé dæmigerð þvæla eftir tækifærissinna, sem var að reyna að koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum þess tíma, nasistum.

Mál Waldheims hefur varpað óþægilegu ljósi á Austurríki. Til skamms tíma voru Austurríkismenn taldir hafa verið í hópi fórnardýra nasismans eins og til dæmis Hollendingar og Danir. Nú hafa menn áttað sig á, að nasisminn var jafnsterkur þar og í Þýzkalandi.

Þjóðverjar hafa horfzt í augu við fortíðina. Þeir hafa gengið í gegnum hreinsunareldinn. Þeir hafa tekið á sig sögulega og sameiginlega ábyrgð á hermdarverkum nasista. Austurríkismenn hafa hins vegar ekki gert upp neina reikninga nasistafortíðar sinnar.

Austurríkismenn hafa gert illt verra með því að fylkja sér um Waldheim. Þeir hafa forherzt. Þeir sögðust ekki láta neina útlendinga segja sér, hvern þeir ættu að kjósa í forsetakosningunum. Þeir sögðu, að útlendingar ættu ekki að hafa afskipti af innanríkismálum Austurríkis.

Slík forherðing er ekkert einsdæmi. Við þekkjum hetjuskap Íslendinga, þegar við segjumst ekki láta móðursjúkar, bandarískar kerlingar segja okkur, hvort við eigum að veiða hvali í svokölluðu vísindaskyni eða ekki. Við segjumst mega veiða hvali og gerum það.

Slíkur hetjuskapur er og verður okkur hættulegur. Hið sama er að segja um hetjuskap Austurríkismanna, þegar þeir völdu sér Waldheim í ögrun gegn umheiminum. Þeir munu einangrast í samskiptum við nágrannaþjóðirnar og í alþjóðlegu samstarfi.

Austurríkismenn áttu einfalda leið úr ógöngum sínum með því að hafna Waldheim í forsetakosningunum. Þeir gerðu það ekki og sitja uppi með ósannindamann.

Jónas Kristjánsson

DV