1. ganga, Páfaríki
Palazzo di Giustizia
Péturskirkja er eitt helzta aðdráttarafl Rómar, enda höfuðkirkja kristindóms. Við byrjum leiðsögnina um Róm í nágrenni hennar, á bakka borgarfljótsins Tevere, við brúna Ponte Umberto I.
Andspænis okkur er það hús, sem mest ber á í allri Róm. Það er Palazzo di Giustizia, dómhús borgarinnar, mikil rjómaterta, hönnuð af Gugliemo Calderini og byggð 1889-1911 í sögustíl, eins konar blöndu hlaðstíls og nýgnæfu
Ponte Sant’Angelo
Við göngum niður eftir árbakkanum, Lungotevere Castello, í átt til fegurstu brúar Rómar. Það er Ponte Sant’Angelo, að mestu frá 136. Hadrianus keisari lét reisa hana til að tengja Marzvelli, Campus Martius, við grafhýsi sitt handan árinnar. Miðbogarnir þrír eru upprunalegir, en endabogarnir eru frá 17. öld. Stytturnar af Pétri og Páli postulum á syðri enda brúarinnar eru frá 1530. Hinar stytturnar tíu eru hannaðar af Bernini og reistar árin 1667-1669.