Eftir gönguferðina um Dublin eigið þið að átta ykkur af lýsingunum hér á eftir, hvar hver bjórkrá er í borginni.
Brazen Head
Elzta krá borgarinnar er Brazen Head og lætur lítið yfir sér niðri við ána Liffey, þar sem Lower Bridge Street liggur niður að henni, um 500 metrum frá Christ Church.
Veitingaleyfið er frá 1666, en talið er, að krá hafi verið hér frá 13. öld. Kráin er að öðru leyti frægust fyrir, að Robert Emmet skipulagði þar hina misheppnuðu uppreisn gegn Bretum árið 1803.
Kráin er tvískipt með ýmsum rangölum inn af steinlögðu porti. Lágt er til lofts og lýsing daufleg, kráargestir friðsælli en víðast hvar, en þægilegir viðskiptis eins og aðrir Írar. Ljóðalestur og írsk tónlist eru hér í hávegum höfð.
(The Brazen Head, 20 Lower Bridge Street, A3)
Palace
Dæmigerð reykjarmakkarkrá er Palace á góðum stað í götunni, sem liggur í framhaldi af Temple Bar að Westmoreland Street, sömu megin götunnar og hótelið Temple Bar.
Viðarskilrúm með speglum mynda stúkur við þungan eðalviðarbar og virðulegan barskápavegg. Inn af kránni er ferningslaga setustofa, þar sem eru sófar og kringlótt sófaborð.
Hér er mikið drukkið og enn meira reykt. Gestir virðast aðallega vera verkamenn og fjölmiðlafólk.
(Palace Bar, 21 Fleet Street, C4)