Babýlon hin nýja

Greinar

Garðastrætis-ríkisstjórnin, það er að segja Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, hefur upplýst, að ekki þurfi að minnka kjarabilið í landinu. Alþýðusambandið hafi sjálft þegar náð sama árangri og var í Mesópótamíu fyrir 3500 árum og sé það nóg í bili.

Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni, sem menn hrósa sér af samanburði við Babýlon. Eftir það má búast við, að Jón Helgason dómsmálaráðherra segi, að ekki þurfi fleiri lög í landinu, af því að lagasafnið sé orðið nokkurn veginn eins gott og hjá Hammúrabí.

Garðastrætis-ríkisstjórnin hefur verið á móti stjórnarmyndunartilraun vikunnar frá því fyrir upphaf hennar. Raunar má undrast, að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi fá leyfi til að reyna þetta mynztur. En tilraun hans reyndist að lokum hafa verið gerð til málamynda.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru undir lokin ákveðnir í að víkja hvergi frá stefnu núverandi stjórnar með Framsóknarflokki. Fulltrúar Kvennalistans voru allan tímann ákveðnir í að víkja ekki frá launajöfnun, þótt það kostaði eftirgjafir gagnvart varnarliðinu.

Fulltrúar Alþýðuflokksins voru hinir einu, sem raunverulega reyndu að semja. Þeir lögðu til, að reynt yrði að ná markmiði Kvennalistans með annarri leið og hægar. Alþýðublaðið segir, að málamiðlunin hafi strandað á kergju beggja hinna. Er það nærri lagi.

Slæm reynsla er af tilraunum til að minnka launabil með valdboði stjórnvalda. Það stafar af, að verið er að reyna að lina félagslegt vandamál á verksviði markaðarins, í stað þess að reyna að lina það í félagslegum geira hins opinbera, ­ hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Konur hafa tekið að sér störf, sem karlar vilja ekki. Það eru verst launuðu störfin í arðminnstu atvinnugreinunum. Þessar greinar verða sízt arðmeiri, þegar reynt er að hífa upp lágmarkslaunin. Launajöfnunartilraunir leiða hjá sér slíkar staðreyndir lífsins.

Miklu nær er að viðurkenna, að markaðsbúskapurinn megnar ekki að búa til næga arðsemi í lélegustu atvinnugreinunum til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af verst launuðu störfunum þar. Mannsæmandi líf við slíkar aðstæður er frekar viðfangsefni samfélagsins.

Hópurinn, sem stendur fjærst mannsæmandi lífi, felur í sér einstæðar mæður og börn þeirra. Vandamál þeirra er skynsamlegast að lina með barnabótum úr sameiginlegum sjóði, í stað þess að rugla markaðskerfið. Veruleg hækkun barnabóta er raunar sjálfsagt réttlætismál.

Hækkun barnabóta kostar að sjálfsögðu peninga eins og hækkun á lífeyri aldraðs fólks og öryrkja. Það ætti ekki að koma á óvart þeim fjármálaráðherra, sem hefur komið halla ríkisrekstrarins upp í níu milljarða á þessu ári og þar með slegið flest met frá dögum Babýlons.

Auðvitað er líka unnt að fá peninga í mjúku málin með því að leggja niður árlegar milljarðagreiðslur til hins hefðbundna landbúnaðar. Allt er spursmál um vilja og forgangsröð, ekki hvort peningar séu til í þetta eða hitt, jafnvel í aukið steinullarhlutafé þessa dagana.

En milljarðaflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Kvennalisti, eru þó sammála um það eitt, að ekki megi hreyfa við milljarðasukki landbúnaðarins. Því hefðu milljarðarnir til barna og gamals fólks ekki fundizt með sparnaði hjá ríkinu, heldur með auknum sköttum.

Nú er það mál úti. Undir handleiðslu Garðastrætis er unnt að fara að endurmynda gamalkunnar stjórnir um, að allt skuli áfram vera eins og var í Babýlon.

Jónas Kristjánsson

DV