Fjárhagur Sovétríkjanna versnaði mjög í vetur, þegar olía hrundi í verði. Þetta bættist við hinn árvissa uppskerubrest þar í landi. Er reiknað með, að ríkið verði að taka sem svarar þúsund milljörðum króna að láni á næstu fimm árum og tvöfaldi erlendar skuldir sínar.
Þetta er líklegasta skýringin á, að Sovétríkin hafa í sumar lagt fram ýmis tilboð, sem leitt geta til slökunar í samskiptum austurs og vesturs. Þau hafa nefnilega tæpast lengur ráð á að taka eins virkan þátt í vígbúnaðarkapphlaupinu og þau hafa hingað til gert.
Mestu máli skiptir, að Sovétríkin hafa linazt í andstöðunni við margs konar eftirlit með efndum á samningum. Ekki er enn ljóst, hvort þessar eftirgjafir nægja til samkomulags við Vesturlönd, sem hafa ástæðu til að telja undirskriftir Sovétmanna marklausar.
Á fundunum í Stokkhólmi um traustvekjandi aðgerðir hafa Sovétríkin og fylgiríki þeirra tregðazt við að samþykkja eftirlit á svokölluðum lokuðum svæðum, sem eru víðáttumikil í þeim heimshluta. Sem dæmi má nefna, að tveir þriðju hlutar Austur-Þýzkalands eru lokaðir.
Hins vegar hafa Bandaríkin nú síðast fallizt á að láta Sovétríkin vita í hvert sinn sem herafli er færður frá Bandaríkjunum til Evrópu. Það er sáttaskref, sem þrýstir á samsvarandi eftirgjafir Sovétríkjanna og eykur vonir um samkomulag í lok fundanna, 19. september.
Fleiri eftirgjafa er þörf af beggja hálfu. Kominn er tími til, að Bandaríkjastjórn viðurkenni, að núverandi tækni skjálftamælinga nægi til virks eftirlits með, að fylgt sé væntanlegu samkomulagi um bann við kjarnorkuvopnatilraunum eða um takmörkun þeirra.
Sex manna hópur ráðamanna Indlands, Svíþjóðar, Grikklands, Tanzaníu, Mexíkó og Argentínu hefur lagt fram freistandi boð um að koma á fót alþjóðlegri vísinda- og skrásetningarstöð, sem vaki yfir, að fylgt sé samkomulagi um bann við kjarnorkuvopnatilraunum.
Ráðamenn Sovétríkjanna hafa tekið tillögu þessari vinsamlega, en ráðamenn Bandaríkjanna hafa hunzað hana. Ósennilegt er, að þeir komist lengi upp með það, því að eftirlit tiltölulega lítt háðra og óháðra aðila ætti að geta orðið eins óumdeilt og veðurfréttirnar.
Þá er kominn tími til, að Sovétstjórnin láti af einhliða þróun eiturvopna og átta ára andstöðu sinni við virkt eftirlit með, að slíkum vopnum verði eytt og að fylgt verði væntanlegu banni við söfnun slíkra vopna. Um það hefur löngum verið þjarkað á fundum í Genf.
Í almenningsálitinu á Vesturlöndum hefur farið minna fyrir andstöðu við eiturvopn en andstöðu við kjarnorkuvopn, þótt þau séu ekki minna ógnvænleg. Heimsveldin hafast ólíkt að á því sviði, Sovétríkin í einkakapphlaupi, en Bandaríkin stikkfrí síðan 1969.
Loks er athyglisvert, að fimm fyrrverandi ráðherrar Nixons, Fords og Carters hafa hvatt Reagan opinberlega til að fallast á tíu ára bann við tilraunum með svokölluð stjörnustríðsvopn, sem margir vísindamenn telja raunar vera draumóra forsetans.
Hér hefur verið bent á nokkur atriði, sem heimsveldin tvö ættu að gefa eftir til að auka líkur á virku samkomulagi um minnkaða stríðshættu í heiminum. Þau eru þess eðlis, að erfitt er að hafna þeim án þess að vera talinn áhugalaus um framtíð mannkyns.
Sem betur fer hafa aðstæður leitt til, að á þessu ári eru meiri líkur en lengi hafa verið á samkomulagi, sem byrji að vinda ofan af vígbúnaðarkapphlaupinu.
Jónas Kristjánsson.
DV