Frá heimsleikunum í Sevilla hefur það verið helzt í fréttum, að íslenzku keppendurnir gátu ekki keppt eða urðu að hætta keppni vegna meiðsla. Bakið gaf sig, meiðsli í hálsi tóku sig upp og tognun varð í nára. Keppendur lifðu á hnífsegg milli heilsu og bæklunar.
Svipuð saga var sögð í fréttum af boltaleikjum Íslendinga heima og erlendis. Leicester-keppandinn var sagður meiddur og Bolton-keppandinn að braggast. Tveir leikmenn KR voru sagðir hafa brotnað og tveir leikmenn Breiðabliks slasazt, allir fjórir í sama leiknum.
Á fimmtudaginn var öll forsíða íþróttafrétta eins dagblaðsins lögð undir slysafréttir. Íslenzkur leikmaður í Wuppertal er með brotna hnéskel og verður frá keppni í þrjá mánuði. Heimsmeistarinn í 100 metra hlaupi kvenna var borinn af velli með meiðsli í mjóbaki.
Endalausar sjúkrasögur íþróttafrétta sýna, að eitthvað meira en lítið er í ólagi. Meðan annað kemur ekki í ljós verður haft fyrir satt, að álag og kröfur í frjálsum íþróttum og boltaleikjum séu orðnar svo úr hófi fram, að bæklun sé að verða lokastigið á ferli ofuríþróttamanna.
Afreksmenn íþrótta sluppu yfirleitt vel frá ferli sínum fyrir svo sem fjórum áratugum, misjafnlega fyrir tveimur áratugum, en afreksmenn nútímans mega búast við að verða bæklar til æviloka. Þetta hefur gerzt hægt og örugglega með vaxandi kröfum um ofurárangur.
Afreksmenn íþrótta eru í auknum mæli að minna á gladíatora hringleikahúsanna í Rómaveldi. Þeir eru í hávegum hafðir, knúnir áfram af æstum pupli, en síðan kastað fyrir róða, þegar ekki er hægt að nota þá meira. Keppnismenn eru skylmingaþrælar nútímans.
Undir lokin snerist líf Rómverja og raunar síðar Miklagarðsmanna um hringleikahús og paðreima. Sama saga er að gerast nú hjá fjölmennum hópum, sem sitja límdir fyrir framan sjónvarpið og horfa á slysin gerast, í boltaleik, í frjálsum, í kappakstri, í hnefaleikum.
Lengi vel voru það einkum austantjaldslönd, sem keyrðu íþróttamenn sína út á hnífsodd bæklunar með ofurþjálfun og lyfjanotkun. Eftir hrun kommúnismans í Evrópu hefur vítahringur ofálags og undralyfja haldið áfram að magnast um heim allan, líka hér á landi.
Á líkamsræktarstöðvum bryðja menn stera eins og hvert annað súkkulaði og fletta auglýsingabæklingum um fæðubótarefni, töfradrykki og megrunarduft. Slysadeildir íslenzkra sjúkrahúsa meðhöndla fleiri slys af völdum íþrótta en áfengis og er þá mikið sagt.
Pupullinn heimtar árangur og fær hann. Heilaþvegnir afreksmenn eru lamdir áfram af þjálfurum til að ná árangri, sem er betri en heimsmet voru fyrir fáum áratugum, en ná skammt nú á tímum. Afleiðingin er líkamleg bæklun fólks, þegar líf þess er rétt að hefjast.
Þetta er ekkert annað en þrælahald, rétt eins og hjá Rómerjum og Austur-Þjóðverjum. Afreksfólk er gert að vélum, sem keyrðar eru í botn og síðan afskrifaðar, þegar bæklunina ber að höndum. Og það er múgurinn í sjónvarpssófunum, sem ber ábyrgðina.
Skylmingaþrælar nútímans standa í þungamiðju vítahrings og sjónvarpsmúgurinn á jaðri hans. Þetta allsherjar Colosseum nútímans er síðan knúið af gífurlegum peningahagsmunum þeirra, sem fjármagna áhorfsfíknina til að vekja athygli á vörum og þjónustu.
Gladíatorar nútímans eru gripnir ungir, heilaþvegnir og ofþjálfaðir. Þeir hamast í hringleikahúsi sjónvarpsins og gera sér ekki grein fyrir aðvífandi bæklun.
Jónas Kristjánsson
DV