Bændur féflettir

Greinar

Ef Mjólkursamlag Kaupfélags Þingeyinga hefði verið selt á frjálsum markaði, hefði fengizt svo miklu meira fyrir það, að þingeyskir bændur hefðu fengið til baka allt það fé, sem þeir áttu inni hjá kaupfélaginu. Í staðinn tapa þeir 140 milljónum króna á hruni fyrirtækisins.

Bændur selja kaupfélögum afurðir og kaupa af þeim nauðsynjar í staðinn. Viðskiptareikningur hjá kaupfélagi hefur löngum verið ávísanareikningur bænda. Margir Þingeyingar áttu nokkur hundruð þúsund krónur inni á viðskiptareikningi hjá kaupfélagi sýslunnar.

140 milljónir króna af inneign bænda á viðskiptareikningum í kaupfélaginu urðu glatað fé, þegar það hrundi um daginn og mjólkurkýr þess var seld með öðrum eignum til að afla fjár upp í sviptingar, sem teldust vera gjaldþrotaskipti, ef um hlutafélag væri að ræða.

Stjórn Kaupfélags Þingeyinga leitaði ekki tilboða, heldur ákvað að selja mjólkursamlagið til Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri fyrir 237 milljónir króna. Engin tilraun var gerð til að finna, hvort þetta væri rétt verð fyrir samlag með 27 milljón króna árlegan hagnað.

Mjólkursamlagið var eina rósin í hnappagati Kaupfélags Þingeyinga. Það framleiddi undir eigin vörumerki mjólkurvörur, sem vakið höfðu athygli um allt land, þar á meðal á hinum erfiða markaði höfuðborgarsvæðisins. Slíkur orðstír er verðmætur, þegar fyrirtæki er selt.

Kaupsýslumenn höfðu lýst áhuga á að kaupa mjólkursamlagið. Starfsmenn fjármálafyrirtækja sundurgreindu ársreikninga þess og mátu það á 350­400 milljónir króna. Og kaupfélagið þurfti einmitt slíka upphæð, 377 milljónir, til að geta staðið í skilum við bændur.

Þegar slíkar upplýsingar eru fáanlegar, er ábyrgðarlaust að afla ekki tilboða í mjólkursamlagið í stað þess að afhenda það KEA á silfurfati. Greinilegt er, að stjórn kaupfélagsins hefur tekið hagsmuni annars kaupfélags fram yfir hagsmuni sinna eigin félagsmanna.

Þetta þætti glæpsamlegt í hlutafélagarekstri og yrði tekið á því sem slíku. Kaupfélög eru hins vegar svífandi fyrirbæri, þar sem erfitt er að skera úr um, hver á hvað og hver ber ábyrgð á hverju. Niðurstaðan er venjulega, að enginn á neitt og enginn ber ábyrgð á neinu.

Kaupfélögin eru hluti valdakeðju, þar sem aðrir helztu hlekkirnir eru stofnanir landbúnaðarins og landbúnaðarráðuneytið. Í þessari keðju hefur löngum verið venja að taka hagsmuni fyrirtækja og stofnana fram yfir hagsmuni bænda, sem litið hefur verið á sem þræla.

Offramleiðslustefnan, sem ríkti um áratugi í landbúnaði, var ekki rekin í þágu bænda. Þeir voru bara vinnudýr stefnunnar, hvattir til að framleiða meira og meira, unz markaðurinn hrundi. Þá voru þeir látnir borga brúsann með kvótakerfi, sem hertist að hálsi þeirra.

Mikilvægt markmið offramleiðslustefnunnar var, að kaupfélög reistu frystigeymslur og kæligeymslur, sem þau síðan leigðu ríkinu fyrir okurverð til að geyma óseljanlegar afurðir, sem biðu útflutnings. Mikilvægt var, að halda þessum geymslum alltaf sneisafullum.

Óvinir bænda voru þeir kallaðir, sem börðust gegn offramleiðslustefnunni á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum. Bændur trúðu þessu margir, þótt hinn raunverulegi óvinur þeirra væri yfirstéttin, sem réð ríkjum syðra í keðju fyrirtækja og stofnana landbúnaðarins.

Síðan hrundi offramleiðslukerfið og bændur um allt land voru gerðir að fátæklingum. Fyrirlitningin á þeim lifir góðu lífi í ráðstöfun eigna Kaupfélags Þingeyinga.

Jónas Kristjánsson

DV