Bændur hafna lausagöngu

Greinar

Viðhorf fólks í sveitum til hefðbundins landbúnaðar breytist smám saman, þegar þar þróast nýir og arðbærari atvinnuhættir, sem eru lítið eða ekkert á herðum neytenda og skattgreiðenda. Ný sjónarmið í sveitum eiga samleið með sjónarmiðum fólks í þéttbýli.

Í Ölfushreppi hefur meirihluti sveitafólks ritað undir áskorun um hömlur á lausagangi sauðfjár. Þetta fólk vill, að sauðfjáreigendur, sem eru á 10-20 bæjum í sveitinni, girði kringum fé sitt, svo að það verði ekki til vandræða í almenningslöndum eða á landi annars fólks.

Undirskriftafólkið hefur margt hvert horfið frá hefðbundnum búskap, sem byggist á lausagöngu, og hallað sér að öðrum búgreinum, svo sem ferðaþjónustu, garðyrkju og hrossarækt, svo og annarri atvinnu, sem líkist hverri annarri atvinnu í þéttbýlisstöðum landsins.

Það hefur lengi vakið furðu þeirra, sem ekki stunda lausagöngu búfjár, að meirihlutinn skuli þurfa að girða eigur sínar til að verjast vágestum hins hefðbundna landbúnaðar, en minnihlutinn skuli komast upp með að hleypa sauðfé sínu á vegi og viðkvæman gróður.

Nágrannar sauðfjárbænda í sveitum sæta þessum vandræðum í meira mæli en þéttbýlisfólk. Undirskriftirnar úr Ölfusi sýna í hnotskurn, hver þróunin er. Smám saman mun bann við lausagöngu búfjár breiðast frá þéttbýli yfir í sveitir nýrra atvinnuhátta.

Sömu bændur og stóðu fyrir undirskriftum Ölfusinga eru að berjast fyrir banni við lausagöngu búfjár í öllu landnámi Ingólfs, það er að segja Reykjavík, Reykjaneskjördæmi og í Árnessýslu vestan Ölfusár. Afturhaldið í landinu getur ekki lengi staðið gegn slíku banni.

Þegar afnumið hefur verið bann við innflutningi hefðbundinnar búvöru og lagðar niður framleiðsluhvetjandi aðgerðir á borð við útflutningsuppbætur, niðurgreiðslur og ýmsa beina styrki og fyrirgreiðslur, þarf þjóðin ekki nema brot af þeim sauðfjárfjölda, sem nú er í landinu.

Slíkar aðgerðir eru brýnar, af því að þjóðin mun fyrr eða síðar uppgötva, að hún hefur ekki ráð á að brenna 20 milljörðum króna árlega í innflutningsbanni og framleiðsluhvetjandi aðgerðum í hefðbundnum landbúnaði, heldur þurfi hún að nota þessa peninga í annað.

Af þessu leiðir, að þjóðin á að geta losað sig við sauðfé úr nágrenni þéttbýlis, úr sveitum nýrra atvinnuhátta og af viðkvæmum móbergssvæðum, þar sem nú ríkir landeyðing, svo sem á afréttum Þingeyjarsýslu, Gullbringusýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu.

Meðan eldgos og frost, vatn og vindar voru ein um landspjöll hér á landi, var Ísland allt viði vaxið milli fjalls og fjöru og landnámsmenn gerðu meira að segja til kola á Kili, svo sem sést af fornleifum og jarðvegssýnum. Það þurfti sauðfé og öxi til að eyðileggja landið.

Þótt margt sé vel gert í landgræðslu, erum við enn á undanhaldi fyrir landeyðingu. Árlega tapast um 1000 hektarar gróðurs umfram það, sem græðist að nýju. Lausagöngubann búfjár er mikilvægur þáttur í að snúa þessu við og endurheimta gróðurfar landnámsaldar.

Bann við lausagöngu búfjár í landnámi Ingólfs mun fljótt hafa hagstæð áhrif á gróður á mjög stóru svæði, sem er afar viðkvæmt, allt suðvestur frá Reykjanestá norðaustur að Þingvöllum. Á þessu svæði eru meðal annars illa farnir afréttir Ölfuss og Grafnings.

Þegar bændur eru sjálfir farnir að sjá, að þeir skaðast af lausagöngu búfjár, er vonandi þess ekki langt að bíða, að heilum landshlutum verði lokað fyrir ágangi.

Jónas Kristjánsson

DV