Bakkinn

Veitingar

Sagan endurtók sig

Of ótrúlegt til að vera satt. Það gat varla verið á stefnuskrá veitingahúss að bjóða illa gerðan mat. En sagan endurtók sig, þótt ég kæmi eins og hver annar sjálfspyndari aftur og aftur í Bakka til að fá aðra reynslu. Reglubundið og eingöngu kom úr eldhúsinu matur, sem var langt frá því að vera frambærilegur. Þetta hlýtur að vera Íslandsmet í skorti á tilfinningu fyrir eldamennsku.

Við slíkar aðstæður gagnar lítt, að þjónustan sé þægileg og elskuleg og húsnæðið gamalt og notalegt í rúmlega aldargömlu Landlæknishúsi. Ekki gagnar heldur að vera á góðu ferðamannahorni í Kovsinni. Viðskiptavinir halda sig fjarri og eftir stendur hálfauður salur, sem færi ólíkt betur að vera fullur af skrafhreifu fólki. Helzt virðist mér, að erlendir ferðamenn hafi slæðst inn, þegar þeir hafa látið freistast af matseðli dagsins á auglýsingatrönum Bakka úti á gangstétt, – þótt verðlag dagsseðilsins sé aðeins lítillega lægra en fastaseðilsins.

Kjörinn staður kaffihúss

Raunar væri þetta kjörinn staður fyrir eitt helzta kaffihús ferðamanna í miðborginni. Gluggarnir eru áleitnir, bæði þeim, sem inni sitja og úti eigra. Fólk horfist gjarna í augu gegnum glerið. Enda er Lækjargatan ein helzta röltgata ferðamanna, með Lærða skólann og Íþöku að rólegu baksviði. Á góðviðrisdögum, svo sem verið hafa í sumar, mætti hafa létta stóla úti á stétt til að magna andrúmsloft gangstéttar-kaffihúss.

Frönsku smárúðurnar eru í rauninni ekki ekta, því að gluggapóstarnir eru einfaldlega lagðir beggja vegna ofan á stórar nútímarúður. En við þurfum ekki að vera að gægjast í slík smáatriði. Inni í opnum og rúmgóðum salnum eru bjartir veggir og loft. Allt er einfalt og opið. Andspænis gluggahliðinni er mikill speglaveggur, sem stækkar staðinn og endurspeglar smárúðu-ímyndina. Yfir speglunum er flóð af pottaplöntum og nokkrar slíkar eru einnig í gluggunum. Bleikir dúkar, bleik blóm og bleikar pappírsþurrkur eru á borðum í hádeginu, en á kvöldin eru notaðar hvítar tauþurrkur. Við borðin eru málmstólar með plastsetum. Í einu horninu er bar og þar við hliðina þrjár gamlar Reykjavíkur-ljósmyndir. Þetta lofar allt fremur góðu og allra sízt matreiðsluslysi.

Frosið smjör er sérgrein

Súpur staðarins hafa reynzt mér flestar vera kekkjaðar hveitisúpur, sem minna á pakkasúpur, sem gleymst hefur að hræra. Þannig var rjómalöguð blómkálssúpa, borin fram með heitu og mjög grófu rúsínubrauði góðu. Þannig var líka snarpheit grænmetissúpa, einnig kölluð rjómalöguð. Undantekningin var mild humarsúpa með koníaki, en að henni var þó óvenjulega lítið humarbragð, ef nokkuð. Með humarsúpunni var borin venjuleg heilhveitiflauta með nánast frosnu, óskerandi og ósmyrjandi smjöri í álpappír, sérgrein hússins í matargerðarlist.

Hvítlaukssteikt ýsa var ofsalega söltuð, borin fram með dósasveppum og rækjum, svo og hrísgrjónum í karrí. Gufusoðin smálúða var ofsoðin og afar þurr, borin fram með hvítum kartöflum og léttsteiktu grænmetisjukki. Séstaklega var mælt með grillsteiktum laxi, sem var ofsalega ofgrillaður og svo þurr orðinn, að ekkert laxabragð var lengur að honum. Lyktin af réttinum var svínakjötslykt, sem lagði af kjötbitum, sem voru í tómatfyllingu á diskinum. Ætli enn sé kennt í hótelskólanum að bera fram svínakjöt með laxi? Til hvers er þá laxinn yfirleitt?

Beðið var um heilsteiktu nautahryggsneiðina lítið steikta, en hún kom samt rúmlega miðlungi steikt, rétt aðeins bleik í miðju, afar þurr, ekki góð, borin fram með brúnni hveitisósu. Enn verri voru grillsteiktu lambalundirnar, sem áttu að vera lítið steiktar. Þær komu þrælsteiktar og nánast óætar, líklega teknar úr frysti og hitaðar í örbylgjuofni. Með þeim fylgdi smjör, sem var svo frosið, að það rann ekki einu sinni á kjötinu, svo og afhýddar og upphitaðar kartöflur. Sannarlega afleitur matur.

Banani í brunarúst

Ofeldunaræðið í eldhúsinu náði loks hámarki í gljáðum banana, sem líktist brunarúst og hafði löngu tapað síðasta votti bananabragðs, borinn fram í brúnu kremi með daufri karamellulykt. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt.

Kaffi eftir mat var frekar dapurlegt og kostaði 85 krónur. Vínlisti er lítilfjörlegur – og opnu vínin, seld í glasatali, eru afar léleg, Chevalier de France og Valpolicella. Boðið er uppi á barnamatseðil og brauðseðil.

Verð þriggja rétta máltíðar með kaffi er að meðaltali 1.583 krónur.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill
190 Rjómalöguð grænmetissúpa
530 Gratineraður steinbítur
620 Gufusoðin smálúða með smjörsteiktu grænmeti
790 Smjörsteiktur lax með hvítvínssósu
910 Heilsteikt nautafillet með rjómasveppasósu

Fasti matseðillinn
220 Sveppasúpa
290 Humarsúpa með koníaki
245 Frönsk lauksúpa
545 Graflax með sinnepssósu
455 Grillaðir sniglar með hvítlauksbrauði
1260 Glóðaðir humarhalar í skelinni
790 Smjörsteiktur skötuselur með valhnetum og vínberjum
860 Gufusoðinn eða grillsteiktur lax með hvítu smjöri
795 Kryddsteiktur/djúpsteiktur smokkfiskur með engifersósu
1230 Piparsteik með grænum pipar og villisveppum
995 Grillsteiktar lambalundir með sniglasmjöri
1140 Grillsteiktur turnbauti með rauðvínssósu
885 Ofnsteiktur lambahryggur með rósinpiparsósu
340 Djúpsteiktur camembert-ostur með rifsberjahlaupi
280 Gljáður banani með enskri kremsósu
265 Fylltar pönnukökur með rjómaís og ávöxtum

DV