Bakþankar í Framsókn

Greinar

Jarðbundin samtök um fjárhagslega hagsmuni félagsmanna fara að tvístíga, þegar ógnað er stöðu þeirra í valdakerfinu. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn áttað sig á, að tökum hans á þjóðfélaginu er núna ógnað af fylgishruni vegna eins máls, sem formaður flokksins hefur sótt af óviðeigandi kappi.

Lykilmenn í flokknum hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki sé í lagi að hafa bara kennitöluskipti á lögum, sem forseti landsins vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslu og koma þannig í veg fyrir atkvæðagreiðsluna. Þeir hafa verið í sambandi við almenna flokksmenn og áttað sig á stöðunni.

Halldór Ásgrímsson flokksformaður hefur hins vegar misst tökin á framvindunni. Hann virðist ekki vera í sambandi við grasrótina, enda kemur hann um þessar mundir dauflega fyrir í sjónvarpi og á opinberum vettvangi, eins og hann sé ekki heill heilsu og átti sig ekki á látunum umhverfis hann.

Sumir flokksmenn segja upphátt, að hann hafi raðað kringum sig ungum ráðgjöfum, sem séu meira að hugsa um eigin frama en að gæta hagsmuna flokks og formanns. Þeir hafi einangrað hann frá umheiminum og teflt honum í þá erfiðu stöðu, sem hann og hans flokkur eru í vegna fjölmiðlamálsins fræga.

Vandræði formannsins stafa þó fremur af einbeittri þrá hans í embætti forsætisráðherra. Hann telur samkomulag um það efni verða svikið af samstarfsflokknum, ef hann fylgi ekki sjónarmiðum Davíðs Oddssonar fast fram. Hann telur, að andstaða við fjölmiðlamálið mundi spilla framavonum sínum.

Hins vegar er hinn augljósi bulluskapur forsætisráðherrans og helztu ráðgjafa hans fjarlægur Framsóknarflokknum, sem sækist fremur eftir friðsamlegu þjóðfélagi, þar sem menn geta gaukað molum að gæludýrum, en stunda ekki hótanir, ógnanir, reiðiköst, lagabrellur og stjórnarskrárbrot.

Þess vegna jaðrar nú við uppreisn í flokki Halldórs Ásgrímssonar. Almennir flokksmenn, studdir valdamiklum aðilum í flokknum, vilja gera flokkinn að nýju að flokki sátta í þjóðfélaginu, fresta málinu til hausts og taka þá góða umræðu og leita sátta út fyrir stjórnarflokkana.

Framsóknarmenn eru farnir að átta sig á, að slík afstaða er meira í stíl flokksins og líklegri en önnur til að treysta stöðu hans í næstu kosningum, hvenær sem þær verða.

Jónas Kristjánsson

DV