Bananalýðveldi

Greinar

Framganga flokksformannanna þriggja, sem ráða ferðinni í ríkisstjórninni, er einstök í sinni röð. Aldrei áður hafa ósvífni og ósannindi verið leidd til hásætis eins stórkarlalega og í þessari ríkisstjórn, sem hefur búið til íslenzka einkakreppu með vondri ofstjórn mála.

Dæmin um þessa framgöngu formannanna birtast í viku hverri. Nú síðast fór forsætisráðherra með rangt mál um skipan seðlabankamála í umheiminum. Þar áður hafði fjármálaráðherra farið með rangt mál um tillögur nefndar sinnar um skattlagningu lífeyrissjóða.

Sú skipan mála Seðlabankans, sem forsætisráðherra segist sækjast eftir, er í stíl við þriðja heiminn, þar sem ráðamenn nota öll brögð til að gera líðandi stund sér bærilegri. Sú skipan, sem hann gagnrýnir, er sú, sem tíðkast um öll Vesturlönd, nema einmitt hér á landi.

Sumir yppta bara öxlum og afsaka þetta með því, að forsætisráðherrann segi svo margt. Aðrir glotta og útskýra þetta með því, að menn segi forsætisráðherranum svo margt. En svona er ekki unnt að fríspila forsætisráðherra, því að hann má ekki vera einhver Gróa úti í bæ.

Í rauninni er íslenzki Seðlabankinn mitt á milli þriðja heimsins og Vesturlanda. Hann er ekki sú kjölfesta í daglegum sviptingum og freistingum stjórnmála, sem hann er í nágrannalöndunum og á að vera, heldur er hann meðfram að þjónusta vafasöm áhugamál valdhafa.

Forsætisráðherra finnst hins vegar, að hann fái ekki næga þjónustu hjá bankanum. Þar á ofan dreymir hann um að hafa þriðja heims banka, sem gæti fyrir kosningar hjálpað honum til að búa til litla sveiflu upp á við, þótt hún kosti stóra niðursveiflu eftir kosningar.

Það er þetta ábyrgðarleysi, þetta kæruleysi í helgun alls konar meðala, sem einkennir störf ríkisstjórnarinnar. Hún reynir að ýta fram í tímann öllum vandamálum líðandi stundar með ódýrum sjónhverfingum og slúðri, ósannindum og ósvífni, sem reynast þjóðinni dýr.

Einn daginn slúðrar forsætisráðherra um erlenda peninga að baki tilboði Hafnfirðinga í togara frá Patreksfirði, án þess að flugufótur hafi verið fyrir áburðinum eða hafi síðan orðið til. Hann tekur greinilega sjálfur ekki minnsta mark á eigin orðum. Þau eru honum ódýr.

Ríkisstjórnin er að búa til bananalýðveldi á Íslandi. Hún þykist vera að lækna skipan ríkisfjármála en stendur í raun á bólakafi í útgjöldum upp á milljarða, sem hún hefur enga heimild fyrir, hvorki á fjárlögum né annars staðar. Hún grýtir peningum í allar áttir.

Ríkisstjórnin stendur í umfangsmiklum björgunargerðum fyrir gæludýr sín í atvinnulífinu, meðan hundruð alvörufyrirtækja mega hennar vegna verða gjaldþrota. Í þessu skyni hefur hún sóað út í loftið um tólf milljörðum, sem börnin okkar verða síðar að borga.

Ríkisstjórnin er að byggja upp umfangsmikið skömmtunarkerfi í austurevrópskum stíl til að allir þurfi að koma skríðandi til hennar dillandi rófunni til að væla út úr henni undanþágur og leyfi, veiðikvóta og fullvinnslurétt, búmark og útflutningsrétt.

Þetta gæludýranamm gengur svo kaupum og sölum eins og í Austur-Evrópu, því að öðruvísi gæti efnahagslífið ekki gengið frá degi til dags. Allt gengur kaupum og sölum. Stuðningur eins þingmanns er greiddur með ríkisfé, sem á að nægja átta manna þingflokki.

Á margan slíkan hátt er ríkisstjórnin að niðurlægja þjóðina. Hún eitrar flest það, sem hún snertir við. Hún er að gera Ísland að þriðja heims bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV