Bandalag krossfara.

Greinar

Bandalag kumpánaskaparins heitir fyrirbæri, sem Ingvar Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra, hefur gefið nafn. Það er að hans áliti samband blaðamanna og ósvífinna valdamanna, sem leiði til þess, að í fjölmiðlum sé mest hampað þeim, er helzt ætti að hirta.

Ingvar rakti ýmis “hneyksli” í blaðagrein á þriðjudaginn. Athyglisvert er, að þær fréttir voru allar úr dagblöðunum. Til viðbótar við dæmi Ingvars mætti rekja önnur, tíu sinnum fleiri, öll af síðum dagblaðanna. Upplýsingar Ingvars og annarra um spillingu og valdhroka eru úr fjölmiðlunum.

Allir stjórnmála- og valdamennirnir, sem Ingvar nefnir, hafa mátt þola margvíslegar kárínur í dagblöðunum. Allir hafa þeir mátt finna til tevatnsins í DV. Daginn, sem grein Ingvars birtist, fól leiðari DV í sér óvægilega gagnrýni á hendur Jóhannesi Nordal.

Með tilliti til þessa hlýtur að vera langsótt að halda fram, að sérstakur kumpánaskapur ríki milli annars vegar blaða, ritstjóra og blaðamanna og hins vegar fjölmenns hóps stjórnmála- og valdamanna, sem Ingvar telur ganga djarflega fram í spillingu og valdhroka.

Hitt er svo laukrétt, að skrif dagblaða um spillingu og valdhroka hafa tiltölulega lítil áhrif. Almenningur lætur sér fátt um finnast. Sumir hneykslast að vísu, en almenningsálitið í heild hneykslast fremur lítið. Valdamennirnir standa nokkurn veginn jafn réttir eftir.

Skýringin á þessu er, að almenningur hefur séð tvenns konar gagnrýni í dagblöðunum. Annars vegar eru réttar fréttir af spillingu og valdhroka. Hins vegar eru svo pólitískar krossferðir gegn andstæðingum í stjórnmálum. Sum dæmi Ingvars eru úr síðari flokknum.

Þjóðviljinn er skýrt dæmi um þetta. Þegar ráðherrar Alþýðubandalagsins eru í ríkisstjórn, er mikið um lof og mikil dýrð á forsíðunni. Um leið og óvinirnir komast í ríkisstjórn, hefjast daglegar krossferðir á forsíðu blaðsins. “Hneyksli, hneyksli,” hrópar blaðið.

Morgunblaðið gerir miklu minna af þessu, en fær þó einstaka stjórnmálamenn á heilann. Ólafur Ragnar Grímsson var um tíma tilefni krossferðar af þessu tagi. Almenningsálitið tekur allar slíkar krossferðir hæfilega alvarlega sem hvern annan þátt í pólitískum menúett bandalags krossfara.

Hin mikla skæðadrífa pólitískra krossferða veldur því svo aftur á móti, að fólk hefur tilhneigingu til að taka lítið mark á öllum hneykslisfréttum af stjórnmála- og valdamönnum, líka þeim, sem réttar eru. Enda er oft erfitt fyrir ókunnuga að greina á milli.

Ástæða þess, að blaðafréttir um spillingu og valdhroka hafa lítil áhrif, er ekki kumpánaskapur blaðamanna og valdamanna, heldur hin mikla skæðadrífa krossferða í pólitísku málgögnunum. Það er bandalag krossfara. Frjáls og óháð blaðamennska er aðeins hluti markaðsins.

Menn halda völdum, þótt skugga beri á þá. Þeir stjórna valdamiklum stofnunum. Sem slíkir eru þeir oft að segja fréttir í blöðum af gangi mála. Ekki geta dagblöðin neitað almenningi um þessar upplýsingar með því að hafna að tala við þá, sem Ingvar stimplar hæpna.

Í máli Ingvars er þó rétt, að kumpánaskapur er stórhættulegur, ef blöð, ritstjórar og blaðamenn eru annars vegar. Slíkt verður að forðast. Hins vegar sýna fréttir íslenzkra dagblaða, að vandi þessi hefur snarminnkað og allt að því horfið, síðan frjáls og óháð blaðamennska kom til skjalanna.

Jónas Kristjánsson.

DV