Bandaríkjastjórn reynir að fá Tyrklandsstjórn til að ráðast með sér á Írak. Í því skyni er henni ýmist lofað 26 milljarða dollara aðstoð eða hótað að skrúfa fyrir aðstoð. Sama gildir um ríkisstjórnir, sem eru svo heppnar eða óheppnar að eiga fulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þeim er hótað öllu illu, ef þær styðja ekki tillögu Bandaríkjastjórnar, og lofað öllu fögru, ef þær samþykkja hana. Ráðamenn Bandaríkjanna segjast vera með þessu að búa til “bandalag hinna fúsu”, sem á að leysa fyrri bandalög af hólmi, þar á meðal Atlantshafsbandalagið, sem ekki vill vera með. Miðað við aðferðir Bandaríkjastjórnar er ekki rétt að tala um bandalag hinna fúsu, heldur bandalag hinna mútuðu og kúguðu.