Utan Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku er sjaldgæft, að ríkjum ráði menn, sem hafa til þess umboð. Sumir fengu á sínum tíma umboð þjóða sinna, en hafa síðan framlengt umboðið sjálfir í skjóli fenginna valda. Aðrir hafa hrifsað til sín völdin í hallarbyltingum og öðrum byltingum.
Sameiginlegt áhugamál allra þessara umboðslausu ráðamanna er að halda völdum. Þjóðum sínum halda þeir niðri með lögreglu og her. Í stað lýðræðis ríkir kvalræði og morðræði. Í flestum tilvikum ríkir einnig þjófræði, því að hinir umboðslausu ræna þjóðir sínar og rupla.
Á alþjóðavettvangi ríkir laustengt bandalag ýmissa tegunda umboðslausra ráðamanna. Í einum hópi bandlagsins eru Sovétríkin og fylgiríki þeirra, í öðrum Arabaríkin og hinum þriðja hin svonefndu hlutlausu ríki þriðja heimsins. Þessir hópar og aðrir blandast á ýmsa vegu.
Vesturlönd eiga lítinn þátt í þessu ástandi, en eru samt ekki saklaus með öllu. Bandaríkjastjórnir hafa til dæmis oft stutt glæpamenn í Suður- og Mið-Ameríku gegn lýðræðisöflum álfunnar. Þær studdu til dæmis Batista á Kúbu, Duvalier á Haiti og Somoza í Nicaragua.
Bandarískir bankar jusu fé í umboðslausa herforingja Argentínu, sem sóuðu peningunum í arðlausa fjárfestingu eða stálu þeim hreinlega. Þegar lýðræðislega kjörin stjórn kemst svo til valda í Argentínu, kippa þessir bankar að sér hendinni, heimta endurgreiðslur og hafa uppi hótanir.
Vesturlönd hafa þó einkum reynt að leggja lóð sitt á hina vogarskálina. Hæst ber þar vestræna upplýsingamiðlun. Fréttamenn frá fjölmiðlum Vesturlanda leggja sig í mikla hættu við að komast að hinu raunverulega ástandi í ríkjum hinna umboðslausu ráðamanna og að skýra frá því.
Hin vestræna fjölmiðlun er að vísu ekkert haldreipi, en þó tvinnaþráður milli kúgaðs almennings í þriðja heiminum og þess hluta heimsins, þar sem mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna er í heiðri höfð. Þessi tvinnaþráður fer ákaflega mikið í taugar umboðslausra ráðamanna.
Þeir hafa búið sér til kenningu um, að lýðræði á vestræna vísu henti ekki í sínum heimshlutum, þar á meðal henti ekki upplýsingafrelsi. Þeir segja, að fjölmiðlar eigi ekki að segja vondar fréttir, heldur stuðla að þjóðareiningu, uppbyggingu, friði og vináttu.
Sérstaklega er þeim illa við vondar fréttir á borð við þær, að eymd íbúanna hafi aukizt á valdatíma hinna umboðslausu ráðamanna, að fjölgað hafi pyndingum og morðum af hálfu þeirra og að fjársöfnun þeirra á bankareikninga í Sviss sé meiri en nokkru sinni fyrr.
Þeir segja, að þessar upplýsingar feli í sér nýlendustefnu af hálfu vestrænna þjóða. Í krafti auðs síns troði þær sinni fjölmiðlun upp á þjóðir, sem fátæktar sinnar vegna eigi menningarlega í vök að verjast. Þannig snúa hinir umboðslausu sannleikanum upp í þverstæðu sína.
Höfuðstöðvar bandalags hinna umboðslausu eru í Menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco. Þar hafa þeir komið upp forstjóra og embættismannaliði, sem vinnur að því að hafa hemil á flæði upplýsinga um hið hörmulega ástand í kvalræðis-, morðræðis- og þjófræðisríkjunum.
Vesturlandabúar þurfa að gera skarpan greinarmun á hinum umboðslausu ráðamönnum og fulltrúum þeirra á alþjóðavettvangi annars vegar og hins vegar hinum sárt leiknu þjóðum, sem bera þennan lýð. Hagsmunir þriðja heimsins eru allt aðrir en hagsmunir hinna umboðslausu ráðamanna hans.
Jónas Kristjánsson.
DV