Bandaríkin einangrast

Greinar

Bandaríkjamenn náðu ekki samstöðu með fyrri bandamönnum um aðgerðir gegn stjórn Saddams Husseins Íraksforseta. Aðeins Bretar fylgdu þeim skilyrðislítið að málum, en aðrir bandamenn vildu friðsamlegri viðbrögð. Flestir vilja nú auka viðskipti við Írak.

Afleiðingin er, að Bandaríkjamenn treystu sér ekki til átaka að þessu sinni. Saddam Hussein vann enn einu sinni hálfa lotu í langvinnum þvergirðingi gegn tilraunum Sameinuðu þjóðanna til að framfylgja vopnahléssamningnum frá lokum Persaflóastríðsins.

Bandalagið gegn Saddam Hussein byrjaði að bila, þegar Bandaríkjamenn stóðu skyndilega upp í miðju Persaflóastríði, lýstu yfir sigri og flúðu heim. Þannig skildu þeir eftir Saddam Hussein ósigraðan og létu framtíðinni eftir að fást við óleysanleg vandræði.

Ekki dugir endalaust að beita viðskiptaþvingunum, sem greinilega losa ekki um veldistauma Saddams Husseins, heldur valda saklausum almenningi gegndarlausum hörmungum. Leið viðskiptaþvingana kemur ekki í staðinn fyrir úthald í alvörustyrjöld.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings varpaði handsprengju inn á fund öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir helgina, þegar stjórn Bandaríkjanna var að reyna að safna liði gegn Saddam Hussein. Deildin felldi greiðslu upp í skuld ríkisins við Sameinuðu þjóðirnar.

Bandaríkjamenn þurfa ekki að borga meira á mann til Sameinuðu þjóðanna en Vestur-Evrópumenn gera. Munurinn er sá, að hinir síðarnefndu greiða yfirleitt gjöld sín til samtakanna á réttum tíma, en Bandaríkjamenn eru orðnir meðal hinna allra skuldseigustu.

Það þýðir ekki í neinu samstarfi að reyna að skipa öðrum fyrir og rífa síðan kjaft, þegar á að fara að taka þátt í kostnaðinum við samstarfið. Þess vegna mun ákvörðun fulltrúadeildar Bandaríkjaþings flýta fyrir vaxandi einangrun Bandaríkjanna í umheiminum.

Við sjáum einangrunina vaxa á öðrum sviðum. Bandaríkjamenn neituðu að taka þátt í samkomulagi heimsbyggðarinnar um bann við jarðsprengjum. Þeir eru ekki fáanlegir til að taka á sig svipaðar byrðar af mengunarvörnum og Vestur-Evrópmenn vilja gera.

Einna alvarlegust er einangrun Bandaríkjanna af völdum öxulsins, er þeir hafa myndað með hryðjuverkaríkinu Ísrael, sem er orðið að illkynjuðu æxli í Miðausturlöndum. Bandaríkjamenn láta þennan tryllta bandamann sinn komast upp með nánast hvað sem er.

Svik Ísraels og Bandaríkjanna við Óslóarsamninginn um friðarferli í Palestínu magna andstöðu íslamskra þjóða og ríkja við Vesturlönd yfirleitt og Bandaríkin sérstaklega. Meðal annars hafa íslamskir bandamenn Vesturlanda úr Persaflóastríðinu snúið við blaðinu.

Það er heimssöguleg nauðsyn eftir lok kalda stríðsins að halda áfram friðarferli milli menningarheima og draga úr spennu milli Vesturlanda og ríkja Íslams. Öxull Bandaríkjanna og Ísraels hefur þveröfug áhrif. Hann magnar spennuna og mun leiða til átaka í framtíðinni.

Bandaríkjamenn geta ekki stjórnað heiminum í krafti peninga. Þeir segjast ekki einu sinni hafa ráð á að taka þátt í kostnaði við stækkun Atlantshafsbandalagsins. Þeir geta ekki lengur stjórnað í skjóli hervalds. Þeir flúðu frá Víetnam, Líbanon, Sómalíu og Írak.

Á innanlandsmarkaði bandarískra stjórnmála er einangrunin túlkuð sem vanþakklæti útlendinga. Viðbrögðin eru í stíl fulltrúadeildarinnar: Meiri einangrun.

Jónas Kristjánsson

DV