Bandaríkin einangrast

Greinar

Fyrirferð einkamála Bandaríkjaforseta í stjórnmálum landsins er dæmi um bilunareinkenni heimsveldis. Í vaxandi mæli er það að hrekjast úr meginstraumi alþjóðlega samfélagsins inn á sérvizkulegar brautir, sem lítinn hljómgrunn hafa með fyrrum bandamönnum þess.

Íraksdeilan er eitt margra dæma um hnignun Bandaríkjanna. Í stað þess að ljúka Flóabardaga með því að hrekja flokk Saddams Husseins frá völdum, var honum hlíft til að nota hann sem mótvægi við Persíu, sem Bandaríkin hafa lengi haft að höfuðandstæðingi.

Enda tókst þeim ekki að fá með sér önnur ríki en Bretland í nýrri atlögu að Hussein í lok síðasta árs. Loftárásir atlögunnar fóru að mestu fyrir ofan garð og neðan. Hernaðarmáttur Husseins er meiri en hann var fyrir Flóabardaga. Hann ögrar heimsveldinu áfram.

Bandaríkin hafa lagt mikinn kostnað í að reyna að friða Norður-Kóreu, sem er enn fátækara og aumara ríki en Írak. Samt heldur smáríkið uppteknum hætti, undirbýr framleiðslu hryðjuverkavopna og hótar að beita þeim gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra.

Einna undarlegust er stinamýkt og fyrirgreiðsla Bandaríkjanna gagnvart Kína, sem enn stelur hugviti og hernaðarleyndarmálum heimsveldisins, peningum bandarískra fjárfesta og ofsækir andófsmenn fyrir fylgilag við “höfuðóvin” sinn, það er Bandaríkin.

Önnur ríki hafa ekki staðið sig betur, en þau gera heldur ekki kröfu til að teljast heimsveldi. Vestur-Evrópa og Bandaríkin hafa beðið sameiginlegt skipbrot í styrjöldum Balkanskagans og geta ekki einu sinni borgað gjaldþrota Rússlandi fyrir að halda sér á mottunni.

Í kjölfar alls þessa kemur svo evran og ryður dollar úr sessi heimsmyntar án þess að setjast þar sjálf í staðinn. Í stað einnar reikningsmyntar í heiminum eru þær orðnar tvær. Strax á fyrstu dögum evrunnar hefur komið í ljós, að hún nýtur ekki minna trausts en dollarinn.

Ríki, fyrirtæki og einstaklingar um allan heim munu fljótlega draga úr dollaraeign sinni og dreifa gengisáhættunni með því að flytja hluta gjaldeyrisforðans yfir í evrur. Þannig missa Bandaríkin hluta valdastöðu sinnar sem seðlaprentunarvél fyrir alla heimsbyggðina.

Bandaríkin hafa að undanförnu í vaxandi mæli farið sínar eigin leiðir í fjölþjóðlegum samskiptum. Þau hafa eitt fárra ríkja ekki enn staðfest hafréttarsáttmálann og helztu umhverfissáttmála síðustu ára. Þau brjóta að geðþótta sáttmálann um Heimsviðskiptastofnunina.

Sameinuðu þjóðunum hafa Bandaríkin sýnt sérstakan yfirgang. Þau neita að borga gjöld sín, þótt þau séu lægri á hvern íbúa en gjöld margra ríkja Vestur-Evrópu og bera því við, að samtökin mæli með fóstureyðingum! Samt vilja Bandaríkin ráða ferð samtakanna.

Hvað eftir annað hafa Bandaríkin einangrazt í atkvæðagreiðslum í Sameinuðu þjóðunum, oft með ofbeldissinnuðu smáríki, Ísrael, sem hefur verið til mikilla vandræða í Miðausturlöndum á þessum áratug. Þetta veldur spennu í samskiptum vesturs og íslams.

Öldungis er óvíst, að önnur ríki stæðu sig betur í hlutverki eina heimsveldisins, ef þau væru af stærðargráðu Bandaríkjanna. En þau eru eina heimsveldið, sem við höfum og ættu að geta staðið sig betur í því hlutverki, ekki sízt eftir gleðilegt fráfall Sovétríkjanna.

Heimsveldi kemst ekki lengi upp með að vera upptekið af innanlandsmálum og allra sízt ef það eru óskiljanleg deilumál á borð við framhjáhöld ráðamanna.

Jónas Kristjánsson

DV