Bandarísk Ísraelsfirra

Greinar

Erfitt er að leita byrjunarreits í vítahring á borð við þann, sem sífellt magnast fyrir botni Miðjarðarhafs. Óhjákvæmilegt er þó að staðnæmast við þá staðreynd, að hver Bandaríkjaforsetinn á fætur öðrum hefur gengið framar fyrirrennaranum í blindum stuðningi við Ísraelsríki.

Að baki þessa er sú skoðun bandarískra kosningafræðinga, að frambjóðendur til þings og forsetaembættis í Bandaríkjunum eigi enga möguleika, ef þeir séu taldir linir í stuðningi við Ísrael. Enda hafa fræðingarnir hjá Gore og Bush sagt þeim að gefa hvergi eftir á þessu sviði.

Á löngum tíma hefur þetta ferli styrkt Ísraelsmenn í þeirri trú, að þeir geti farið fram eins og þeim þóknist. Bandaríkin og bandaríska þjóðin muni sjá þeim fyrir peningum og pólitískum stuðningi, svo og öflugustu fáanlegu hergögnum gegn grjótkasti Palestínumanna.

Þannig hefur Ísrael orðið æxli, sem dregur næringu sína frá Bandaríkjunum og leikur lausum hala án tillits til vestrænna hagsmuna. Vegna þessa æxlis geta Vesturlönd ekki náð eðlilegum samskiptum við lönd Íslams og vegna þessa æxlis er olíuverð komið upp til skýjanna.

Mál hafa mótast þannig, að meirihluti Ísraela lítur á sig sem herraþjóð og Palestínumenn eins og hunda, sem njóti ekki verndar alþjóðlegra samþykkta um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Ísraelsmenn leika hlutverk Þjóðverja á hernumdum svæðum heimsstyrjaldarinnar.

Ísraelar yppta öxlum, er hermenn þeirra taka hundrað Palestínumenn af lífi í uppþotum, en ganga af göflunum, er tíu Ísraelsmenn eru drepnir á móti. Hið sama gera raunar Clinton Bandaríkjaforseti og Albright utanríkisráðherra hans. Menn gera sér grófan mannamun.

Vaxandi hroki og yfirgangur Ísraela í Palestínu veldur sífellt meira hatri hinnar hernumdu þjóðar, sem býr þar á ofan við þá ógæfu að hafa lélegan foringja, sem hefur látið ráðamenn Bandaríkjanna draga sig á asnaeyrunum, þannig að hann hefur glatað trausti þjóðar sinnar.

Arafat hefur laskazt pólitískt af friðarferlinu og hefur ekki lengur tök á Palestínumönnum. Hann reynir því að sigla milli skers og báru. Hann getur ekki kveikt og slökkt á óeirðum og hefur undanfarnar vikur orðið að halda í humátt á eftir hinum róttækari öflum í landinu.

Enn verri er staðan á hinum vængnum, þar sem Barak forsætisráðherra hefur ekki reynzt hafa bein í nefinu á borð við suma fyrirrennara sína, svo sem Begin og Rabin. Þeir gátu fetað friðarferlið, en Barak leitar sífellt skjóls í málóðri ofsaþjóðernisstefnu að hætti Hitlers.

Tvennt vantar til að koma raunhæfu friðarferli aftur í gang. Í fyrsta lagi verða deiluaðilar að skipta út hinum ónothæfu forustumönnum sínum. Í öðru lagi þarf Bandaríkjastjórn að byrja að setja trylltu Ísraelsríki stólinn fyrir dyrnar. Því miður er hvorug forsendan í augsýn.

Á meðan verða forustumenn annarra vestrænna ríkja að beita forustumenn Bandaríkjanna vaxandi þrýstingi. Evrópumennirnir í þessum hópi verða að benda á siðleysi Ísraels og hagsmuni Vesturlanda af stöðugu og hóflegu olíuverði og af útbreiðslu vestrænna sjónarmiða.

Síðasta atriðið gleymist oft. Vestræn sjónarmið lýðræðis, laga og réttar, dreifingar valdsins og jafnréttis hafa breiðst út víða um heim, til dæmis til Austur-Evrópu, Indlands og fleiri ríkja í Asíu, en hafa að mestu farið framhjá þjóðum Íslams vegna vestræns stuðnings við Ísrael.

Með Ísraelsfirru sinni eru Bandaríkin smám saman að glutra niður forustu sinni fyrir Vesturlöndum og skaða stöðu vestrænnar hugmyndafræði í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV