Bandarískir stríðsglæpir

Punktar

Fangar, sem eru grunaðir um að vera liðsmenn Al Kaída, sæta pyndingum bandarísku leyniþjónustunnar í Bagram flugherstöðinni í Afganistan, að sögn Washington Post í gær. Þetta brot á alþjóðasamningum gegn stríðsglæpum er varið með tvöföldum útúrsnúningi, að bandarísk lög nái ekki til Bagram og að hinir grunuðu séu ekki hermenn. Ef þeir játa ekki, eru þeir sendir leyniþjónustum Jórdaníu, Egyptalands og Marokko, sem hafa enn verra orð á sér. BBC segir í morgun, að vestræn mannréttindasamtök heimti rannsókn og bendi á, að fjöldi yfirmanna bandarísku leyniþjónustunnar og bandarískra stjórnvalda, þar á meðal forseti landsins, muni erlendis sæta ákærum fyrir stríðsglæpi. Þetta minnir á, að Bandaríkin reyndu ákaft að hindra stofnun Alþjóða stríðsglæpadómstólsins í Haag fyrr á þessu ári.