Bandarískt innhaf

Greinar

Í viðureigninni við her Líbýu í fyrri viku sýndi bandaríski flotinn fram á, að Miðjarðarhafið er ekki aðallega arabískt eða vesturevrópskt áhrifasvæði og ekki heldur sovézkt, heldur bandarískt. Það er eina niðurstaða átakanna, sem telja má, að hafi varanlegt gildi.

Reagan Bandaríkjaforseti er nú upplitsdjarfari en hann var, þegar bandaríska friðargæzluliðið flúði við lítinn orðstír frá Líbanon fyrir tveimur árum. Miðjarðarhafsfloti Bandaríkjanna hefur nú bætt fyrir álitshnekkinn, sem stjórn forsetans beið þá.

Í Líbanon var raunar athyglisvert, að stjórn Sovét ríkjanna gat ekki komið skjólstæðingsstjórn sinni í Sýrlandi til aðstoðar. Og nú var athyglisvert, að Sovétríkin gátu ekki eða vildu ekki koma til hjálpar skjólstæðingi sínum í Líbýu, Kaddafi höfuðsmanni.

Milli 2000 og 6000 sovézkir ráðgjafar eru í Líbýu, þar á meðal við eldflaugastöðvarnar, sem bandarísku flugvélarnar löskuðu. Þar sem þeir urðu ekki fyrir hnjaski, má reikna með, að Bandaríkin hafi varað Sovétríkin við í tæka tíð og þeir komizt í skjól.

Hið eina, sem Sovétríkin gerðu í máli þessu var að mótmæla aðgerðum Bandaríkjanna. Hið sama gerðu þau raunar nokkru áður, þegar bandaríski flotinn sigldi ögrunarsiglingu um Svartahaf, sem margir hefðu talið, að væri eins konar sovézkt innhaf.

Máttleysi Vestur-Evrópu á Miðjarðarhafi minnir á máttleysi Sovétríkjanna. Hver ímyndar sér, að einhver ríki þar hefðu sér á parti eða sameiginlega svarað í sömu mynt, þegar Kaddafi sparkaði í þau Slíkt væri óhugsandi, svo máttlaus er Vestur-Evrópa orðin.

Átökin hafa leitt til tímabundins hnekkis Vesturlanda í áliti ráðamanna og almennings í Arabalöndunum. Ráðamenn í þeim heimshluta telja sér af trúarástæðum skylt að styðja Kaddafi, þótt þeir hafi raunar á honum hina mestu óbeit og vildu fegnir losna við hann.

Fljótlega munu átökin á Surt-flóa gleymast og samband Vesturlanda og Arabaheimsins færast í fyrra horf. Harka stjórnar Bandaríkjanna mun ekki leiða til varanlegra vandræða í samskiptum þessara heimshluta, þótt sumir hafi haldið slíku fram að undanförnu.

Átökin hafa ennfremur leitt til tímabundinnar sjálfsánægju Kaddafis, sem hafði haft hægt um sig frá áramótum, þegar hann lét myrða 19 flugfarþega í Róm og Vínarborg. Hann er nú vígreifur og hleypti því til stað festingar fjölda vestrænna blaðamanna til landsins.

En ánægja hans er ekki heldur varanleg. Útilokað er fyrir vestræn ríki að haga gerðum sínum með tilliti til áhrifa þeirra á Kaddafi. Hugsun hans er ekki rökfræðileg. En vísast má á næstunni búast við öldu hryðjuverka gegn Bandaríkjamönnum að hans undirlagi.

Sumir halda fram, að skynsamlegra sé að beita samningum fremur en stríðsvélum í viðskiptum við Kaddafi. Mitterrand Frakklandsforseti er þó vafalaust minnugur samkomulagsins í Tsjad, þegar Kaddafi hafði hann að fífli og dró ekki her sinn á brott eins og samið var um.

Lagalega og siðferðilega var bandaríski flotinn í rétti á Surt-flóa. Hann var utan landhelgi samkvæmt niðurstöðu síðustu hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og leyfði mönnum Kaddafis að eiga upphafið að átökunum. Viðbrögðin voru markviss og í samræmi við tilefnið.

Árangurinn er að vísu takmarkaður. Kaddafi er enn við völd og verður áfram til vandræða. En Bandaríkin hafa endurheimt Miðjarðarhaf sem áhrifasvæði sitt.

Jónas Kristjánsson

DV