Bandarískt valdaafsal

Greinar

Saddam Hussein Íraksforseti leikur Bill Clinton Bandaríkjaforseta jafn grátt og hann lék George Bush forseta á sínum tíma. Bush glutraði á sínum tíma niður sigri í Persaflóastríðinu og nú tvístígur Clinton dögum saman, þegar Saddam Hussein rýfur vopnahléið.

Saddam Hussein varð langlífari í embætti en Bush og getur orðið langlífari en Clinton, ef bandarískir kjósendur sjá gegnum ímyndarþokuna, hversu lélegur forseti hann er, og neita honum um endurkjör í vetur. Ekkert fararsnið er hins vegar á kaldrifjuðum Íraksforseta.

Hann sendi um helgina tugþúsundir hermanna inn á sérstakt griðasvæði Kúrda, sem hann samdi um við Bandaríkin og bandamenn þeirra í lok Persaflóastríðsins. Bandaríkin og bandamenn þeirra bera auðvitað ábyrgð á, að íbúarnir njóti verndar á griðasvæðinu. Eftir miklar loftárásir hefur her Saddams Husseins tekið borgina Arbil og fleiri staði á griðasvæðinu. Mikill fjöldi íbúa fórst í árásunum. Aðrir voru svo skipulega teknir af lífi af morðsveitum forsetans, sem ganga hús úr húsi í Arbil. Þetta er öll vernd Bandaríkjanna.

Sá, sem lofar vernd, en stendur ekki við hana, er auðvitað ómerkingur. Það kemur ekki í staðinn fyrir vernd að segjast hafa sett hermenn í viðbragðsstöðu. Harmleikurinn heldur áfram í Arbil þrátt fyrir viðbragðsstöðuna. Svik Bandaríkjanna eru orðin öllum átakanlega ljós.

Segja má, að það jafngildi dauðadómi að þiggja vernd vesturveldanna. Þannig fer nú fyrir Kúrdum í Arbil og þannig fór fyrir íslömum í Srebrencia í Bosníu í fyrra, þegar Sameinuðu þjóðirnar höfðu að undirlagi vesturveldanna lýst borgina sérstakt griðasvæði.

Í gamla daga var það talið vera meira mál að ráðast á verndarsvæði. Þegar Hitler réðst á Pólland, fóru vesturveldin í stríð við hann. Þau töldu sér skylt að framfylgja yfirlýsingum sínum. Núna stendur ekki steinn yfir steini í vestrænum hótunum um gagnaðgerðir.

Leiðtogar Serba í Serbíu og Bosníu hafa árum saman haft leiðtoga vesturveldanna að háði og spotti. Stundum skrifa Serbar undir samninga, sem þeir brjóta jafnóðum í öllum atriðum. Vesturveldin hóta í sífellu öllu illu, en sjaldnast verður neitt úr framkvæmdum.

Hér í blaðinu hefur margoft verið bent á, að það kann ekki góðri lukku að stýra, er harðstjórar og glæpaforingjar um allan heim fylgjast með eymd og volæði vesturveldanna í samskiptum þeirra við aðra harðstjóra og glæpaforingja. Slíkt hefur slæmt fordæmisgildi.

Saddam Hussein hefur lesið stöðuna rétt. Hann hefur fylgzt með hraðri hnignun vesturveldanna í Bosníudeilunni og hefur fylgst með kosningabaráttu Clintons Bandaríkjaforseta. Hann taldi sig geta komist upp með svipuð griðrof og Karadzic og Mladic í Bosníu.

Clinton Bandaríkjaforseti telur það mundu skaða sig í kosningabaráttunni að þurfa að knýja með hervaldi framgang samningsins um vopnahlé við Persaflóa. Hann veit, að kjósendur hafa lítinn áhuga á utanríkismálum og kæra sig ekki um mannfall á fjarlægum slóðum.

Þegar forseti og kjósendur í heimsveldi eru sammála um slík viðhorf, hættir ríkið að vera heimsveldi. Í fjarlægum löndum hætta menn að taka mark að slíku heimsveldi eins og menn hættu fyrir nokkrum áratugum að taka sérstakt mark á svokölluðu bresku heimsveldi.

Sjálfhverfan mun valda Bandaríkjunum ýmsum óþægindum. Ekki er bæði hægt að halda og sleppa. Sá, sem segir af sér völdum, missir fríðindi valdanna.

Jónas Kristjánsson

DV