Bandarískur ófriður

Greinar

Vegna eindregins stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael náðist ekki samkomulag milli Palestínu og Ísraels á fundinum í Camp David. Ísraelar þykjast vissir um stuðning Bandaríkjanna, ef samningar takast ekki og róstur hefjast að nýju á hernumdum svæðum þeirra í Palestínu.

Með peningum og vopnum hafa Bandaríkin gert Ísrael að voldugu herveldi, sem fer sínu fram án tillits til víðtækari hagsmuna Bandaríkjanna. Ef stjórnvöld í Bandaríkjunum linast í stuðningnum, á Ísrael vísa hjálp þingmanna, sem óttast þrýstihópa stuðningsmanna Ísraels.

Clinton Bandaríkjaforseti hefur gengið lengra en fyrri forsetar í stuðningi við Ísrael. Meðan hann er við völd, verður þess ekki að vænta, að Ísrael verði látið gjalda fyrir stífni í friðarsamningum við Palestínu og fyrir ítrekuð brot á Óslóar-samkomulaginu um skil á landi.

Ekki er von á friði á valdasvæði Ísraels, meðan Bandaríkjastjórn fæst ekki til að setja hnefann í borðið og krefjast þess, að Ísrael standi við gerða samninga og fari að öðru leyti eftir alþjóðlegum samningum, svo sem um bann við pyntingum fólks á hernumdum svæðum.

Utanríkisstefna Bandaríkjanna snýst í of miklum mæli um stuðning við óstýrilátt og ofbeldishneigt Ísrael og gríðarlegar mútur til Egyptalands til að halda þar uppi ólýðræðislegu lögregluríki, sem sér í staðinn um að rjúfa samstöðu íslamskra ríkja gegn yfirgangi Ísraels.

Þetta pólitíska rugl er eðlilegt framhald af fyrra rugli Bandaríkjanna í utanríkismálum, þar sem helztu bófar rómönsku Ameríku, Afríku og Asíu hafa verið studdir til pólitískra valda, af því að þeir þóttust vera á móti kommúnisma eða vera hallir undir bandaríska hagsmuni.

Sagan sýnir, að stuðningur Bandaríkjanna við bófa í útlöndum hefur ekki borgað sig. Leppríkið í Ísrael mun einnig verða þeim dýrkeypt áður en upp er staðið. Fyrr eða síðar verður blóðbað í Palestínu, sem mun gera bandaríska kjósendur afhuga stuðningi við Ísrael.

Það truflar utanríkisstefnu vestrænna þjóða gagnvart heimi íslams og öðrum heimshlutum að hafa ofbeldishneigt Ísrael á bakinu fyrir tilstilli Bandaríkjanna. Það dreifir vestrænum kröftum í baráttunni fyrir útbreiðslu vestrænna hugmynda um skipan þjóðfélagsmála.

Evrópumenn og stjórnvöld í Evrópu hafa áttað sig á, hvernig Ísrael hefur orðið að pólitísku æxli í Miðausturlöndum. Evrópusambandið hefur til dæmis fyrir löngu lýst yfir, að austurhluti Jerúsalems og gamli miðbærinn í borginni tilheyri ekki Ísrael heldur Palestínu.

Vatíkanið og Palestína hafa samið um skipan mála í gömlu Jerúsalem í framtíðinni, en Ísrael hefur neitað að taka þátt í slíku samstarfi. Augljóst er, að Jerúsalem er sögulega og tilfinningalega borg þrennra trúarbragða og enn þann dag í dag byggð fólki þrennra trúarbragða.

Vissir um stuðning Bandaríkjanna í ágreiningi við nágranna sína og umheiminn yfirleitt hafa Ísraelar sem þjóð valið blóðugu leiðina. Þeir hafa kosið sér til valda ófriðarsinna, sem senda jarðýtur á hús Palestínumanna og láta reisa ísraelskar byggðir á palestínsku landi.

Ísraelar hafa kosið að gerast blóði drifin herraþjóð í hernumdu landi og brjóta hverja einustu grein alþjóðareglna um mannréttindi og meðferð hernuminna þjóða. Þeir hafa kosið að gerast æxli, sem ekki verður læknað með endurteknum tilraunum til friðarsamninga.

Meðan Ísraelar eru vissir um takmarkalausan stuðning bandarískra þingmanna og eindreginn stuðning Bandaríkjastjórnar munu þeir ekki semja um frið.

Jónas Kristjánsson

DV