Bandormur þjóðarviljans

Greinar

Þótt bandormur ríkisstjórnarinnar sæti andstöðu á Alþingi og jafnvel einstakra stjórnarþingmanna, er hann í töluverðu samræmi við ýmis helztu áhugamál þjóðarinnar, sem kærir sig kollótta um samdrátt í velferð lítilmagnans, í heilsugæzlu og í skólahaldi.

Það er í samræmi við vilja þjóðarinnar, að bandormurinn snertir nærri ekkert óskabarn hennar, hinn hefðbundna landbúnað. Þjóðin vill á þeim vettvangi óbreytt ástand, sem kostar hana um tólf milljarða á ári í innflutningsbanni og átta milljarða í innlendum stuðningi.

Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri lýsir meirihluti hinna spurðu yfir því, að ekki megi flytja inn búvöru í samkeppni við hina innlendu, jafnvel þótt það lækki vöruverð til neytenda. Þannig lýsir þjóðin því yfir, að hún sé reiðubúin að bera þessar byrðar.

Úr því að stærsti útgjaldaliður neytenda og skattgreiðenda er friðhelgur, má búast við, að þeim mun meira verði undan að láta á öðrum sviðum, þegar harðnar á dalnum. Niðurskurður hlýtur að verða þeim mun þyngri á öðrum sviðum sameiginlegra útgjalda.

Einnig hefur komið í ljós, að þjóðin hefur mikinn áhuga á, að til samgöngubóta verði boruð göt í fjöll. Samgöngur eru annað hjartans mál hennar næst á eftir landbúnaði. Enda hefur ríkisstjórnin aðeins treyst sér til eins árs frestunar framkvæmda á þeim vettvangi.

Ekki er heldur líklegt, að nein markverð andstaða verði við, að helmingur vandamálsins verði galdraður á brott með flötum niðurskurði ríkisútgjalda. Það er gamalkunn og vinsæl aðferð, sem hefur ævinlega falizt í, að niðurskurður verður í raun alls enginn.

Fáir gráta, þótt sveitarfélög verði fyrir kárínum, sem samtals nema tæpum milljarði króna. Sveitarfélög eru ópersónuleg fyrirbæri eins og ríkið sjálft og eru hvort sem er á hausnum eins og ríkið. Það er bara sveitarstjórnarfólkið, sem barmar sér yfir milljarðinum.

Þjóðinni er nokkurn veginn sama, þótt fjárveitingar til Háskólans leggist niður á 22 árum, ef svo fer fram, sem nú horfir. Henni er líka sama um annan niðurskurð í skólamálum og í heilsugæzlu, svo ekki sé talað um barnabæturnar, sem aðeins á að skera um 10%.

Það velferðarkerfi, sem Íslendingar vilja í rauninni hafa, er ekki velferðarkerfi heimilanna, heldur hins hefðbundna atvinnulífs. Menn vilja, að ríkisvaldið framleiði seðla handa opinberum sjóðum til að sjá um, að atvinnurekstur leggist ekki niður eða færist til.

Bandormur ríkisstjórnarinnar er fyrsta aðgerðin til að mæta mögru árunum, sem gengin eru í garð. Þessi mögru ár eru heimasmíðuð og eru leidd af vilja þjóðarinnar. Þau stafa af hátimbruðu velferðarkerfi atvinnulífsins og einkum þó hins hefðbundna landbúnaðar.

Þegar búið er að verja milljörðum til að framleiða laxeldisstöðvar með handafli og milljörðum til að tryggja, að hvert einasta frystihús landsins verði áfram í rekstri, má búast við timburmönnum á borð við þá, sem bandormi ríkisstjórnarinnar er ætlað að lina.

Þegar búið er að byggja upp varnarkerfi til að draga úr möguleikum á, að ferskur fiskur sé seldur dýru verði úr landi, má búast við slíkum timburmönnum. Þeir stafa einfaldlega af því, að undanfarnar ríkisstjórnir hafa verið önnum kafnar við að framkvæma þjóðarviljann.

Með bandormi ríkisstjórnarinnar hefur þjóðin fengið það, sem hún vill og á skilið. Hún sækist eftir sjálfspyndingum og hefur fengið þær. Í því felst lýðræðið.

Jónas Kristjánsson

DV