Bankahjörtu slá í takt

Greinar

Bankastjórar þurfa ekki að hittast í Öskjuhlíð til að verðleggja bankaþjónustu. Þeir eru komnir lengra á þroskaferlinum en gúrkusalar. Hjörtu bankastjóra slá í takt. Milli þeirra er þráðlaust samband eins og hjá olíuforstjórum, sem allir í sömu andrá fá sömu hugmynd um sömu krónuhækkun.

Þegar fyrirtæki eru orðin fá í hverri grein, kemur fyrr eða síðar að þeirri hugljómun stjórnenda, að þráðlaus og ómeðvituð samráð um verð eru hagkvæmari og gróðavænlegri en samkeppni upp á líf og dauða. Fáokun er eðlileg endastöð markaðshagkerfis, sem hefur náð fullum þroska.

Vegna smæðar markaðarins gerist þetta hraðar hér á landi en í stóru löndunum. Við búum þegar við fáokun á flestum mikilvægum sviðum á undan öðrum þjóðum. Undantekningar lifa enn á afmörkuðum sviðum, svo sem millilandaflugi, bílainnflutningi og verktöku, en einnig þar getum við búist við snöggri samþjöppun.

Stundum truflast fáokun af völdum nýliða á borð við Iceland Express. Oftast leysa íslenzkir neytendur vandann með því að taka ekki upp viðskipti við nýliðann, heldur bíða eftir tímabundinni verðlækkun gamla kúgarans. Ef nýliðinn nær samt árangri og hæfilegri markaðshlutdeild, freistast hann til að njóta hennar í nýju jafnvægi fáokunar.

Lausnin á okurvöxtum bankanna og öðrum teiknum þess, að markaðshagkerfið sé komið að fótum fram, felst ekki í Eysteinsku eða einhverju öðru hagkerfi fortíðarinnar. Það bætir ekki stöðu viðskiptamanna, þótt nýtt verðlagsráð skilgreini meintan kostnað bankanna og reikni leyfilega álagningu í formi vaxtamunar. Við höfum áður prófað slíkt.

Meðan við bíðum eftir, að einhvers staðar í útlöndum verði fundið upp nýtt hagkerfi til að leysa fáokun markaðshagkerfisins af hólmi, höfum við einfalda leið til að knýja fram bætt hlutskipti viðskiptamanna bankanna. Það felst í að taka upp evruna sem gjaldmiðil og ganga í Evrópusambandið.

Í bandalagi helztu viðskiptaþjóða okkar er til sægur af bönkum, sem sumir hverjir gætu hugsað sér að taka upp samkeppni á Íslandi og brjóta fáokunina á bak aftur, ef þeir þyrftu ekki að leggja í mikinn kostnað vegna þess. Þeir gætu það með því að byrja á netbankaþjónustu. Hún kostar ekkert mahóní og gabbró.

Lengi var æðsta hugsjón núverandi ríkisstjórnar að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann og magna þannig fáokun. Gegn okri banka er því engra lausna að vænta af hennar hálfu, né af hálfu þeirrar stjórnarandstöðu sem leitar lausna í fortíðinni.

Bankaokur leggst þá fyrst af á Íslandi, þegar kjósendur átta sig á kostum evru og Evrópu, sem verður um seint og síðir.

Jónas Kristjánsson

DV