Bankarnir eru ábyrgir

Greinar

Komið hefur í ljós, að 15% af lánunum, sem erlendir bankar veittu Filippseyjum á þjófræðistíma Marcosar, fóru beint á bankareikninga hans í Sviss og víðar. Barnalegt væri að halda því fram, að lánveitendur hafi ekki haft hugmynd um þessa meðferð lánsfjárins.

Marcosi þjófi tókst að auka bókaðar skuldir Filippseyja úr 80 milljörðum króna í 1000 milljarða. Þessi skuldasöfnun var drýgsti þátturinn í 400 milljarða króna heildarstuldi hans, þótt hann hefði einnig öll spjót úti á öðrum sviðum. Um þetta vissu alþjóðabankarnir.

Engin siðferðileg leið er að ætlast til þess af Filippseyingum, að þeir endurgreiði þessa 1000 milljarða Marcosar. Hann hafði ekki annað umboð til að stjórna Filippseyjum en það, sem hann gaf sér sjálfur. Um þetta vissu bankarnir, sem mokuðu fé í hann.

Dæmi Marcosar er aðeins stærsta dæmið af mörgum tugum um framferði alþjóðabanka í þriðja heiminum. Annað dæmi er Chile, sem var í peningasvelti á lýðræðistíma Allendes, en hefur verið að drukkna í lánsfé, síðan Kissinger kom geðsjúklingnum Pinochet til valda.

Eitt sorglegasta dæmið er Argentína, sem drukknaði í lánsfé á valdatíma her- og lögregluforingja, sem haldnir voru stelsýki og kvalalosta, en hefur verið fryst af alþjóðabönkunum, síðan lýðræðisstjórn komst þar til valda. Argentínumenn bera ekki ábyrgð á skuldunum.

Einhverra hluta vegna virðast vestrænir bankastjórar halda, að peningar séu vel varðveittir hjá glæpamönnum, sem ryðjast með ofbeldi til valda í þriðja heiminum, en illa geymdir hjá stjórnum, sem starfa í umboði borgaranna eins og tíðkast á Vesturlöndum.

Staðreyndin er hins vegar sú, að þeir, sem ráða ríkjum í skjóli hers og lögreglu fara verr með fé en hinir, sem hafa umboð. Fæstir eru að vísu eins mikilvirkir og Marcos, en eru þó haldnir sömu áráttu stelsýkinnar. Afganginum verja þeir í prumpfyrirtæki og hergögn.

Einræðisherrann Castro á Kúbu er ekki sá, sem heppilegast er að vitna til, en nauðsynlegt til að vísa á hættuna, sem stafar af ábyrgðarleysi bankastjóra. Hann hefur lagt til, að skuldir þriðja heimsins verði afskrifaðar. Í stórum dráttum er þetta rétt hjá honum.

Ef Castro væri einn um að halda þessu fram, væri hætta á, að misheppnað þjóðskipulag hans fengi vott af ljómanum frá réttri skoðun hans á lánamálum þriðja heimsins. Sem betur fer eru þeir orðnir margir aðrir, sem sjá í máli þessu lengra en nef þeirra nær.

Garcia, forseti í Perú, er hófsamur maður og hefur tilkynnt, að ríki hans muni borga mest 10% af útflutningstekjum sínum í kostnað af erlendum skuldum. Gott væri fyrir vestræna bankastjóra, ef slíkir heiðursmenn væru margir í valdastólum þriðja heimsins.

Hið eina, sem alþjóðlegir bankastjórar hafa sér til afsökunar í eindregnum stuðningi þeirra við morðingja og þjófa, er, að þeir hafi verið studdir til þess af sínum ríkisstjórnum. Í slíkum tilvikum eiga þeir að geta sent bakreikninginn til þessara sömu ríkisstjórna.

Nauðsynlegt er, að máli þessu verði haldið til streitu, fjöldi banka gerður gjaldþrota og mýgrútur bankastjóra gerður atvinnulaus. Hinir bankastjórarnir verða að átta sig á, að ábyrgð hlýtur að fylgja því að kaupa víxla af glæpamönnum, sem falsa undirskriftir heilla þjóða.

Alþjóðlegir bankastjórar vissu nákvæmlega um, hvað Marcos gerði við peningana, sem hann fékk hjá þeim. Þeir geta reynt að rukka þá inn hjá Marcosi sjálfum.

Jónas Kristjánsson

DV