Bannað að afla gjaldeyris.

Greinar

Sérkennilegt er, að leifar haftastefnunnar skuli vera svo heilagt mál, að helztu foringjar Sjálfstæðisflokksins mega ekki heyra minnzt á afnám þeirra. Þótt innflutningur hafi verið gefinn frjáls, vill kerfið enn halda dauðahaldi í haftabúskap í útflutningi.

Hví skyldi vera reynt að hamla gegn, að aflað sé gjaldeyris með útflutningi? En það er einmitt gert með því að hafa útflutning háðan leyfum og með því að neita leyfum til þeirra, sem hafa nýjar hugmyndir í útflutningi sjávarafurða og afurða landbúnaðarins.

Athyglisvert er, hversu ákaft Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vernda kerfi útflutningshafta. Það liggur beint við að álykta, að þeir séu að vernda sölustofnanir, sem standa þeim nærri. Og engum kemur raunar á óvart, þótt Framsókn standi vörð um SÍS.

Þegar imprað er á þessu, er helzta vörnin, að fyrir fjölmörgum áratugum hafi íslenzkir aðilar boðið afurðir niður hver fyrir öðrum. Eina leiðin hafi verið að smala þeim saman í samtök, svo að þeir gengju ekki hver af öðrum dauðum. Og þessar stofnanir lifa enn.

Samt virðist vera unnt að stunda samkeppni á öðrum sviðum útflutnings en í hinum hefðbundnu greinum sjávarútvegs og landbúnaðar. Ekki stunda ullar- og skinnavöruútflytjendur nein bræðravíg, né heldur þeir, sem flytja út ferskan fisk í gámum, svo dæmi séu nefnd.

Af hverju eiga sölustofnanir, sem sitja í skjóli meiri eða minni einokunar, að ákveða, að þær geti nýtt betur markaðinn í útlöndum á auðveldari og ódýrari hátt en aðrir? Og að þær hafi sterkari aðstöðu en aðrir í baráttunni við erlenda samkeppnisaðila?

Ekki voru það SH eða SÍS, sem fundu upp á útflutningi á ferskum fiski með kaupskipum og flugvélum. Ekki voru það SH eða SÍS, sem stóðu fyrir hinni miklu aukningu á gæðum, sem er forsenda þessa útflutnings og ýmiss annars framtaks í útflutningi sjávarafurða.

Sverrir Hermannsson iðnaðarráðherra sagði einu sinni, að sölusamtökin væru “löngu frosin föst í starfsemi sinni” og hefðu “ekkert aðhafzt til þess að afla nýrra markaða, varla lyft hendi til þess að finna markaði fyrir nýja vöru, til dæmis kúfisk”.

Sverrir hefur sjálfsagt ekki reynt að fara með löndum í þessum ummælum. Og auðvitað má margt gott um sölusamtök segja. Til dæmis hefur Síldarútvegsnefnd ríkisins jafnan haft tiltrú í sinni grein. En slíkt dæmi sannar ekki neitt um hið almenna ástand.

Tekið hefur verið eftir, að SH og SÍS hafa náð mun hærra verði en helztu keppinautarnir á frystum fiski í Bandaríkjunum. Ennfremur vita menn, að Færeyingar hafa treyst SH fyrir sínum útflutningi. En þetta eru engin rök fyrir því, að engir aðrir spreyti sig.

Ung fyrirtæki í útflutningi sjávarafurða hafa staðið sig vel á undanförnum árum. Af handahófi skulu nefnd Ístros, Íslenzka útflutningsmiðstöðin, Triton, Seifur, Íslenzka umboðssalan og Fiskafurðir. Fleiri gætu komið til skjalanna, ef höftin væru látin niður falla.

Frægt er, að mörgum sinnum hafa íslenzkir aðilar náð mun hærra verði á lambakjöti í útlöndum en SÍS hefur samið um. Í hvert einasta sinn hefur verið neitað um leyfi. Þetta er eitt skýrasta dæmið um, að frelsið er betra en höftin, líka í útflutningi íslenzkra afurða.

Jónas Kristjánsson.

DV