Bannað að mótmæla

Greinar

Kínastjórn hefur verið að reyna að sveigja kvennaráðstefnur Sameinuðu þjóðanna í Peking og Huairou að hagsmunum sínum. Hún hefur komizt upp með að einangra frjálsu ráðstefnuna og takmarka aðgang að henni og nú er hún að reyna að hefta málfrelsi þátttakenda.

Fyrst reyndi stjórnin að minnka áhrif frjálsu ráðstefnunnar með því að flytja hana frá Peking upp í sveit til Huairou, sem er 45 km frá höfuðborginni. Síðan fór hún að neita óæskilegum konum um vegabréfsáritanir og þykjast ekki finna hótelpantanir annarra slíkra.

Kínastjórn telur til dæmis þær konur vera óæskilegar, er koma frá ríkjum, sem eru í stjórnmálasambandi við Taívan; konur, sem hafa tekið virkan þátt í að mótmæla meðferð Kínastjórnar á konum í eigin landi; og konur, sem hafa barizt fyrir mannréttindum Tíbetbúa.

Undanfarna daga hefur stjórnin reynt að setja reglur um skoðanir þeirra kvenna, sem komust gegnum nálaraugað. Hún hefur bannað hvers konar mótmæli gegn sér og svokallaðan róg um sig. Öll önnur mótmæli megi aðeins fara fram á einum skólaíþróttavelli í Huairou.

Þá hefur Kínastjórn miklar áhyggjur af farangri þeirra kvenna, sem hafa starfað að mannréttindamálum. Hún hefur látið leita í tvær klukkustundir samfleytt í farangri þeirra að prentuðu máli eða öðrum gögnum, sem hún telur hættuleg, og látið gera slíkt upptækt.

Ekkert ríki í heiminum nema Kína fengi að halda ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna upp á þessi fáránlegu býti. Kína reynir stöðugt að sveigja fjölþjóðlegt samstarf undir krumpuð lögmál alræðisstjórnarinnar og virðist í þessu tilviki hafa komizt upp með það.

Frjálsa ráðstefnan er fyrir löngu orðin hneyksli af ofangreindum ástæðum. Sænskar konur sýndu fyrir mörgum vikum rökrétt viðbrögð gegn þeim dónaskap kínverskra ráðamanna, sem þá var þegar kominn í ljós. Þær sitja heima, meðan aðrar lokuðu eyrunum og fóru.

Íslenzkir þáttakendur afsökuðu ferð sína með því, að þeir mundu nota tækifærið til að mótmæla framferði Kínastjórnar á ýmsum sviðum. Nú er komið í ljós, sem ferðalangarnir gátu sagt sér sjálfir, ef þeir hefðu kært sig um, að slík mótmæli verða hreinlega ekki leyfð.

Undirlægjuháttur íslenzkra þátttakenda á ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna í Kína er í stíl við opinber samskipti ríkjanna. Íslenzkir ráðherrar eru sí og æ á ferðalögum til Kína og forseti Íslands er þar núna. Þessi miklu samskipti við forhertan glæpaflokk eru óviðeigandi.

Utanríkisráðherra Íslands gerði sig að viðundri í þessari viku með því að missa út úr sér, að hann hefði rætt við kínverska ráðamenn um hugsanlega byggingu kínversks álvers á Íslandi. Kínastjórn mun örugglega ekki reisa álver á Íslandi, ekki einu sinni lakkrísver.

Löngum hafa íslenzkir gróðafíklar ímyndað sér, að mikið væri að hafa upp úr viðskiptum við Kína, af því að þar væri stór markaður. Mannréttindakjaftæði mætti ekki skyggja á tækifærin. Í stað þess ættum við að nudda okkur upp við ráðamenn Kína, eins og nú er gert.

Skemmst er frá því að segja, að víðast höfum við betri tækifæri til góðra viðskipta en í Kína. Við höfum aðgang að margfalt víðari mörkuðum en við getum sinnt. Og það er í ríkjum, þar sem réttarstaða erlendra fjárfesta og kaupsýslumanna er margfalt betur virt en í Kína.

Sneypuferð íslenzkra kvenna á ráðstefnuna í Kína dregur vonandi úr líkum á, að Íslendingar láti Kínastjórn draga sig frekar á asnaeyrunum en þegar er orðið.

Jónas Kristjánsson

DV