Sagrada Família
Ef við beygjum inn þvergötuna við Casa Milá, komum við fljótlega að einkennistákni borgarinnar, umdeildri höfuðsmíði arkitektsins Gaudí. Það er kirkjan Temple Expiatori de la Sagrada Família.
Byrjað var að reisa hana fyrir rúmri öld, en hún er enn ekki fullsmíðuð, en turnarnir mörgu, með marglitum mósaíktoppum, rísa í óskipulegri reisn yfir görðunum í kring. Ekki er hægt að lýsa þessu furðuverki í texta. Það tekst betur með ljósmynd, en bezt er þó að koma á staðinn, standa undir berum himni í kirkjuskipinu og horfa upp til turna Gaudís.
Héðan má taka leigubíl og skreppa til Parc Güell. Það er skemmtigarður, sem er teiknaður af enn hinum sama Gaudí. Upphaflega átti þetta að vera hverfi 60 garðíbúða, en aldrei varð af því. Eftir stendur skemmtigarðurinn með Hans og Grétu piparkökuhúsum og skrautlegum hleðslum af ýmsu tagi, draumaheimur fyrir börn á öllum aldri.