Thomas Carothers rekur í Washington Post ýmis dæmi þess, að Bandaríkjastjórn vinni gegn lýðræðisöflum í heiminum. Paul Wolfowitz aðstoðarstríðsmálaráðherra kvartaði nýlega opinberlega yfir því, að tyrkneski herinn gerði ekki stjórnarbyltingu út af andstöðu ríkisstjórnar Tyrklands við aðild að stríðinu gegn Írak. Bandaríski herinn hefur tekið ástfóstri við harðstjórnarríkið Uzbekistan til að koma þar upp setuliði. Bandaríkin verðlaunuðu einræðisríkið Singapúr með sérstökum viðskiptasamningi, en neituðu á sama tíma að staðfesta viðskiptasamning við lýðræðisríki á borð við Chile, sem ekki vildi fara með í stríðið. Allir þekkja dólgsleg ummæli bandarískra ráðherra um Frakkland og Þýzkaland. Carothers telur raunveruleg lýðræðisríki í heiminum ekki svo mörg, að skynsamlegt sé af Bandaríkjastjórn að leggja þau í einelti.