Barnið og baðvatnið

Greinar

Fyrirhuguð jarðakaupalög koma ekki aðeins í veg fyrir sölu jarða til útlendinga eftir stofnun Evrópska efnahagssvæðisins. Þau hindra einnig sölu jarða á innlendum markaði. Þau rýra þannig verðgildi jarðanna og skerða stórlega tekjumöguleika aldraðra bænda.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt í þingflokkum hennar. Það felur í sér, að kaupandi skuli hafa unnið við landbúnað í fjögur ár, þar af tvö hér á landi; eða hafa setið jörðina í fimm ár; eða sé nágranni; og gangist undir kröfur um óbreytta nýtingu.

Með þessu er verið að reyna að takmarka kaupendahópinn við nágrannabændur, sem vilja stækka við sig, eða þá, sem koma úr landbúnaði og hyggjast halda áfram hefðbundinni nýtingu jarðarinnar. Þessir kaupendur verða áreiðanlega fáir, enda þarf þjóðin þá ekki.

Að undanförnu hefur ýmsum ráðum verið beitt til að fá menn ofan af hefðbundnum landbúnaði. Sett hefur verið upp kvótakerfi, sem þvingar bændur til að draga saman seglin og helzt að selja ríkinu framleiðslurétt sinn. Fyrirhuguð jarðakaupalög eru andstæð þessu.

Í samdrætti hefðbundins landbúnaðar hafa margir aldraðir bændur aflað sér lífeyris með því að selja jarðir sínar til annarra nota en hefðbundinna. Þær hafa verið teknar til skógræktar eða hrossaræktar eða jafnvel bútaðar niður í sumarbústaðalönd þéttbýlisfólks.

Þrátt fyrir þennan markað hefur verð á jörðum verið lágt og sala treg. Sumar jarðir eru árum saman á sölulista, þótt þær séu ekki langt frá Reykjavík og njóti jafnvel jarðhita. Nýju lögin munu kippa fótunum undan þessum markaði og gera jarðir nánast verðlausar.

Þetta er gott dæmi um, að barninu er kastað út með baðvatninu. Reist er svo há girðing gagnvart útlendingum, að girt er um leið fyrir innlendan markað. Frumvarpið er greinilega samið á vegum hinna stjórnlyndu framsóknarmanna, sem eiga Sjálfstæðisflokkinn.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að herða gömul lög, sem fela í sér, að þjóðin hafi fullan aðgang að landi sínu og umgengnisrétt um það. Ekki megi girða í ár og vötn og ekki girða fyrir hefðbundnar leiðir fólks án þess að setja upp hlið.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að setja almennar reglur, sem fela í sér, að afréttir og óbyggðir séu ekki seljanleg vara. Einnig þarf að fjölga friðlýstum stöðum og stöðum á náttúruminjaskrá og setja skorður við sölu slíkra staða.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að setja reglur um rekstrarform hlunninda, svo sem laxveiði, sem fela í sér, að menn þurfi að tala íslenzku til að vera hlutgengir stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækjanna, sem stofnuð eru um hlunnindin.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að setja reglur um tilfærslu á hluta af sköttum þéttbýlinga og útlendinga til þeirra sveitarfélaga, þar sem þeir eiga jarðnæði, svo að eignarhald þeirra veiti auknar tekjur til rekstrar strjálbýlisbyggða.

Með ýmsum hætti má ná þeim árangri, sem frumvarpið stefnir að, án þess að draga úr innlendum jarðamarkaði, sem felst einkum í, að jarðir eru teknar úr hefðbundnum landbúnaði og lagðar til frístundaiðju þéttbýlisbúa. Þá eðlilegu þróun á ekki að stífla.

Það eru heimskra og hugmyndasnauðra manna ráð, sem felast í nýja jarðakaupafrumvarpinu. Það er dæmigert um getuleysi stjórnmála- og embættismanna okkar.

Jónas Kristjánsson

DV