Verðstríðið á jólabókamarkaði hefur aukið bóksölu og komið bókum betur en áður í sviðsljós athyglinnar. Bækur fást nú víðar en þær gerðu fyrr á árum. Þær hafa haldið innreið í stórverzlanir. Þannig hafa þær færzt nær fjöldanum og eru sýnilegri en þær voru áður.
Þetta er til góðs fyrir alla aðila, sem koma að málinu, aðra en þá, sem reka hefðbundnar bókabúðir. Í sumum tilvikum fá útgefendur og höfundar minna í sinn hlut af hverju seldu eintaki, en vegna aukinnar heildarsölu á þetta að hafa jafnazt upp að meðaltali.
Neikvæða hliðin á breytingunum er veikt staða hefðbundinna bókabúða. Þær eru margar hverjar reknar með tapi ellefu mánuði ársins og gátu áður bætt sér það upp með jólabókasölu, sem hefur færzt að hluta í önnur söluform, svo sem í forlagsbúðir og stórverzlanir.
Til aðlögunar nýjum aðstæðum hefur mörgum bókabúðum verið breytt. Í sumum hefur verið aukin áherzla á ritföng og skólavörur eða á almennar gjafavörur á jólamarkaði. Loks er farið að bera á hljómdiskasölu og myndbandaleigu í litlum bókabúðum á landsbyggðinni.
Þannig reynir hver að bjarga sér sem bezt hann getur. Þetta er þekkt í öðrum greinum. Sjoppur blómstruðu, þegar strangar takmarkanir voru á opnunartíma nýlenduvöruverzlana. Sjoppueigendur hafa varizt auknu frelsi með því að taka upp myndbandaleigu.
Benzínstöðvar sækja á matvöruverzlanir og sjoppur með því að bjóða í vaxandi mæli vörur, sem áður sáust ekki á benzínstöðvum. Og bakarí eru byrjuð að breytast í almennar helgarmorgna-verzlanir. Menn víkka þjónustuna við neytendur, sem komnir eru inn fyrir dyr.
Ekki er unnt að sporna gegn margvíslegum breytingum af þessu tagi. Með auknu viðskiptafrelsi breytast viðskiptahættir. Hver fyrir sig reynir að bæta stöðu sína með því að ganga inn á fyrri svið annarra og búa til vöruframboð, sem þjónar viðskiptavinunum sem bezt.
Langt er síðan byrjað var að höggva í sérsvið hefðbundinna bókabúða. Árum saman hafa tíðkazt forlagsverzlanir. Fólk í jólainnkaupum fór milli forlagsbúða og keypti bækur á svokölluðu forlagsverði, sem er mun lægra en það, sem var í bókabúðum fyrir verðstríð.
Á síðari árum hafa útgefendur fært út kvíarnar á þessu sviði og sett upp afsláttarmarkaði fyrir eldri bækur. Þannig koma þeir út gömlum bókaleifum og þjónusta neytendur ágætlega. En sú sala dregur um leið að nokkru úr viðskiptum fólks við hefðbundnar bókabúðir.
Ennfremur hafa sumir útgefendur stofnað bókaklúbba, þar sem þeir selja bækur beint til fastra viðskiptavina, án þess að bókaverzlanir komi við sögu. Þeir hafa líka beina sölumenn á sínum snærum, sem sitja við símann eða fara um landið og bjóða sérstök vildarkjör.
Þannig er sala bóka á tilboðsverði í stórverzlunum ekki upphaf að atlögu gegn hefðbundnum bókabúðum. Fremur mætti kalla hana endapunkt á langri breytingasögu, þar sem bókabúðir hafa verið á undanhaldi í sölu bóka og bætt sér það upp með innreið á önnur svið.
Miklu máli skiptir, að niðurstaða málsins í heild er sú, að neytendur fá bækur á lægra verði en áður. Þeir njóta afsláttar í mörgum verzlunum, nota tilboð og vildarkjör útgefenda og fara á sérstaka afsláttarmarkaði eldri bóka. Hagur bókaáhugafólks hefur því batnað.
Um leið vænkast hagur bókarinnar í þjóðlífinu. Hún er á boðstólum á miklu fjölbreyttari hátt en áður var og nær því betur en áður til alls almennings í landinu.
Jónas Kristjánsson
DV