Bautinn

Veitingar

Bautinn á Akureyri olli mér nokkrum vonbrigðum. Hann stóð í raun ekki undir því lofi, sem hlaðið hefur verið á hann. Matreiðslan var svo sem í meðallagi, en útlit veitingastofunnar er í rytjulegasta lagi.

Líklega er þó Bautinn sá staður, sem benda verður ferðamönnum á, því að hið hræðilega Súlnaberg handan götunnar er eina samkeppnin. Og Bautinn er alténd ekki dýrari en Súlnaberg. En betra er þó að borða sjaldnar og borða á KEA.

Bautanum er tvískipt í efra og neðra gólf. Mun snyrtilegra er á neðra gólfi og ekki eins kuldalegt. Á báðum stöðum eru ágætir birkistólar eins og á kaffiteríu Loftleiða. Á veggjum í neðri sal er dökkbrúnn panill að ofanverðu og grænt leðurlíki að neðanverðu.

Rauður dúkurinn á gólfi er einkar misheppnaður, því að skítur sést mjög vel á honum. Í stíl við dúkinn virtist skortur á hreinlæti. Óhreinir diskar lágu á borðum í klukkustund eftir að gestir voru farnir. Það er hvimleitt að borða innan um stafla af óhreinum leir og mataráhöldum.

Bautinn er fremur annríkislegur staður. Of hátt stillt útvarp bætir ekki stemmninguna, en er þó ekki nógu hátt til þess, að fréttalestur heyrist. Umhverfið hefur svo hinar jákvæðu hliðar, svo sem barnahorn og röska afgreiðslu.

Djúpsteiktur fiskur
Djúpsteiktur fiskur með salati var á matseðli dagsins. Fiskurinn sjálfur var sæmilegur, en steikarhjúpurinn var of brenndur. Hrásalatið var gott og hafði að geyma tómata, gúrku og blaðsalat, svo og hæfilega litla salatsósu. Frönsku kartöflurnar voru frambærilegar. Sítrónu- og tómatbátar bættu réttinn töluvert. Bezt var þó kokkteilsósan, mild og rjómuð, líklega næstbezta kokkteilsósa landsins. Þessi sósa og hrásalatið góða fylgdu flestum réttum Bautans. Verð fiskréttarins var 2.500 krónur.

Kínverskar pönnukökur
Tvær kínverskar pönnukökur með hrásalati voru á fastaseðlinum. Sjálfar pönnukökurnar voru góðar, þunnar og stökkar. Inni í þeim voru kjötbitar í karríhrísgrjónum, ekki í frásögur færandi. Hrásalatið góða með blaðsalati og tómati bætti réttinn. Verðið var 2.200 krónur heill skammtur og 1.400 krónur hálfur.

Lambakótilettur
Lambakótilettur með frönskum og salati voru á fastaseðlinum. Kótiletturnar voru grásteiktar, dálítið brenndar og bornar fram með öllu fitulaginu á. Þær voru ekkert sérstakar, en ætar. Kryddsmjörið var lítið kryddað og ekki gott. Frönsku kartöflurnar voru frambærilegar, sem fyrr segir, kokkteilsósan ljómandi góð. Loks fylgdi niðursoðinn ananashringur. Verðið var 3.800 krónur.

Kjúklingur
Grillaður kjúklingur með hrísgrjónum og frönskum kartöflum var á matseðli dagsins. Kjúklingurinn var sæmilegur, barbeque-sósan var dísæt, en ekki beinlínis vond. Hrásalati og frönskum hefur áður verið lýst. Hrísgrjónin voru köld og hörð og vond. Verðið var 3.500 krónur.

Turnbauti
Turnbauti með kryddsmjöri, kartöflum og salati var á fastaseðlinum. Turnbautinn var hrásteiktur eins og um var beðið, en samt blóðlaus. Kjötið var meyrt og bragðgott. Frönskum kartöflum, hrásalati og kryddsmjöri hefur áður verið lýst. Béarnaise-sósan var sómasamleg og sveppirnir úr dós. Helzti galli þessa réttar var of mikil notkun krydds á kjötið. Verðið var 5.900 krónur.

Frómas
Ananas-frómas var á matseðli dagsins, ekki merkilegur eftirréttur, en frambærilegur. Verðið var 700 krónur.

Ís
Ísinn á fastaseðlinum var nougat með skemmtilega brenndu bragði, að einverju leyti heimatilbúinn. Þetta var góður ís.

Kaffi
Kaffið var þunnt og lítilfjörlegt og kostaði heilar 400 krónur eftir mat.
Meðalverð tveggja rétta máltíðar á matseðli dagsins var 3.600 krónur og 4.000 krónur að kaffi meðtöldu. Meðalverð á súpum og eggjaréttum var 1.500 krónur, aðalrétta 4.200 krónur og eftirrétta 800 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta um 6.500 krónur og 6.900 krónur að kaffinu meðtöldu. Bautinn er í sama verðflokki og Súlnaberg á Akureyri, Skrínan, Askur og Halti haninn í Reykjavík.

Bautinn fær fimm í einkunn fyrir matreiðslu og fjóra fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er þrír, svipuð og Skrínunnar í Reykjavík, skárri en Súlnabergs á Akureyri, en engan veginn nógu góð í tólf þúsund manna bæ.

Jónas Kristjánsson

Vikan