Bautinn er staðurinn á Akureyri. Þar er umferðin. Þar snæða heimamenn og aðkomufólk. Enda situr matstofan ein að ódýra markaðinum þar nyrðra. Súlnabergið er að vísu um 30% ódýrara, en þar er mötuneytisfæði. Og hin veitingahúsin sex eru öll langtum dýrari en Bautinn. Þess vegna fara allir í Bautann. Ég líka, ef ég væri svangur.
Gangstéttarveitingahús
Staðurinn treysti stöðu sína með garðhúsinu, sem snýr út að Hafnarstræti. Það er svo áberandi gangstéttar-veitingahús, að vegfarendur laðast ósjálfrátt að staðnum. Ferðamenn þekkja margir hverjir ekki til annarra veitingasala og taka strikið beint í Bautann. Viðbyggingin er rúmgóð og vel heppnuð sem eins konar auglýsingaskilti staðarins.
Hin nýjungin í Bautanum er, að fiskur hefur haldið innreið sína í þetta upprunalega steikhús. Af átta aðalréttum á matseðli dagsins eru oftast sex fiskréttir. Þetta er kúvending, – hefur gerzt á skömmum tíma. Og greinilegt er, að markaður er ekki síðri fyrir fiskréttina en steikurnar.
Að vísu hef ég grun um, að hið mikla fiskframboð byggist á stórum frystikistum og nærtækum örbylgjuofni. Að minnsta kosti var allur fiskur, sem ég prófaði, í hinum þurra og safalausa stíl, sem fylgt hefur innreið örbylgjuofnanna. Frystur fiskur er ekki góður matur og örbylgjuofnar gera hann miklum mun verri.
Raunar hefur mér verið álasað fyrir of harða gagnrýni á fiskréttamatreiðslu veitingahúsa Akureyrar. Mér er sagt, að afar erfitt sé að fá ferskan fisk í þessum mikla útgerðarstað. Veitingamenn séu dæmdir til að nota frystan fisk. Eitthvað hlýtur að vera til í þessu, því að nánast útilokað er að fá góðan fisk á þessum stöðum.
Kúgaðir af Kea?
Hins vegar sé ég ekki ástæðu til að vorkenna veitingamönnum, þótt Kea reyni að drepa fiskbúðir og neyða þrælana að frystikistunum í kaupfélaginu. Út um allan Eyjafjörð er smáútgerð, sem veitingamenn gætu samið við, ef þeir nenntu að hafa almennilegan fisk á boðstólum í trássi við kaupfélagsvaldið. Og ég skil ekki í neytendum á Akureyri að láta þetta ferskfiskleysi viðgangast.
Pönnusteiktur Höfðavatnssilungur með eggjasósu var dæmigerður fyrir ástandið í Bautanum. Þetta var í sumar, svo að fiskurinn hefði getað verið ferskur. En hann var þurr, eins og hann væri ofsteiktur eða örbylgjusteiktur, nema hvort tveggja væri. Eins og silungur getur verið góður.
Smjörsteiktar gellur í pernod-sósu voru ekki góðar, en mig brestur þekkingu á, hvað hefur gerzt að tjaldabaki. En alténd var óbrúanleg gjá milli þessa matar og hliðstæðunnar að Búðum á Snæfellsnesi, þar sem kokkurinn útvegar sér ferska vöru og kann að matreiða hana.
Bezti fiskurinn var ýsuflök Doria, sæmilegur matur.
Í einni prófuninni var súpa dagsins sæmileg sjávarréttasúpa með of þurrum rækjum, en ekki seigum. Í annarri var súpan hveitilöguð blaðlaukssúpa. Hvort tveggja var sæmilega ætt, en ekkert umfram það.
Álitlegasti maturinn í Bautanum var salatborðið, sem fylgir öllum aðalréttunum. Borðið trónar á miðju gólfi og býr yfir miklu úrvali. Stundum verða einstöku þættir þess of þreytulegir, svo sem sveppir, tómatar, gulrætur og blaðsalat. Bezt er að vera á ferðinni snemma, meðan borðið er sem ferskast.
Stundum er meira að segja hægt að fá olíu og edik út á salatið til viðbótar nokkrum tegundum af sósu. Oftast er þar gott úrval af hollu brauði. Í eitt skiptið var það þó búið og aðeins hveitiflautur eftir. Í stórum dráttum má þó telja salatborðið stolt staðarins.
Kínverskar pönnukökur voru óvenjulega bragðlausar, en urðu ætar, þegar sojasósu hafði verið mokað í þær. Grillaður kjúklingur var hæfilega eldaður og ágætlega meyr, sennilega bezti maturinn. Hamborgari var góður, mun betri en sá í Súlnabergi handan götunnar. Börnin luku ekki við frönsku kartöflurnar og teljast það ekki góð meðmæli.
Þrælslegar steikingar
Beðið var um gratineraða lambasneið lítið steikta, en hún kom þrælsteikt á borðið. Sama er að segja um bautasneiðina. Það er ekki eins og þetta hafi verið steikhús til skamms tíma. Á slíkum stöðum er venja að kunna að steikja eftir óskum gesta.
Nokkru síðar var bætt fyrir þetta með góðum lambakótilettum, mildilega grillsteiktum. Meðlætið var samt þetta staðlaða, venjulega, sem við sjáum fyrir okkur, þegar við lokum augunum, béarnaise-sósa, franskar kartöflur, soðið grænmeti, gulrætur, rósakál og sveppir. Allur matur var óhæfilega mikið kryddaður.
Ávaxtaskál fól í sér blandaða dósaávexti og terta dagsins var lítið merkilegri. Kaffi var hins vegar ágætt. Vínlistinn var mesta rusl, en með lægi mátti fá skárri flöskur neðan úr Smiðjunni.
Þrátt fyrir alla þessa gagnrýni verð ég að játa, að ég mundi sennilega fara í Bautann, ef ég yrði svangur á Akureyri. Maturinn er ekki beinlínis vondur, þótt hann sé kæruleysislega eldaður. Hann er ætur og kostar miklu minna en matur annars staðar á Akureyri, að Súlnabergi undanskildu. Og ég gef ekki mikið fyrir matinn á fínu stöðunum á Akureyri.
Svo hefur Bautinn þann kost að vera við annan enda göngugötunnar, handhægur fyrir gesti hótelanna í kring og jafnan nærtækur, ef maður hittir mann og niðurstaða þess verður spjall yfir kaffibolla. Þess má og geta, að fólk þarf ekki lengur að standa við afgreiðsluborðið. Komin er full þjónusta á staðinn og hún er í lagi.
Súpa og salatbar kostuðu 250 krónur, beztu kaupin á staðnum. Miðjuverð aðalrétta, að súpu og salatbar meðtöldu, var 360 krónur. Hið sama, að salatbar frátöldum, kostaði 270 krónur í Súlnabergi. Þríréttuð máltíð af seðli dagsins með kaffi og hálfri flösku á mann af frambærilegu víni kostnaði 712 krónur í Bautanum. Af fastaseðli hefði slík máltíð kostað 805 krónur.
Jónas Kristjánsson
Dæmigerður dagsseðill:
90 Rjómalöguð blaðlaukssúpa
330 Smjörsteiktar gellur í pernod-sósu
320 Pönnusteiktur karfi með rækjum og papriku
320 Ýsuflök Doria
340 Pönnusteiktur Höfðavatnssilungur með eggjasósu
440 Kryddsoðinn lax með bræddu smjöri og hvítum kartöflum
420 Grillsteiktar lambakótilettur með béarnaise-sósu
440 Púrtvínssoðnar lundabringur með rauðkáli
370 Grísasnitsel með rauðkáli
250 Súpa og salatbar
(Súpa og salatbar fylgja öllum aðalréttum)
Fastaseðill:
110 Frönsk lauksúpa
130 Sjávarréttasúpa með papriku
340 Djúpsteiktur skötuselur með tartarsósu
310 Fiskur dagsins gratíneraður með hvítum kartöflum
290 Marineruð síld með rúgbrauði og soðnum kartöflum
340 Sjávarréttapanna gratíneruð með ristuðu brauði
460 Bautasneið með béarnaise-sósu, ristuðum sveppum og lauk
595 Enskt buff með lauk og soðnum kartöflum
630 Frönsk nautasneið með kryddsmjöri og spergli
430 Lambasneið gratineruð að hætti hússins
430 Reykt grísakótiletta með rauðvínssósu og grænmeti
460 Grillsteiktur kjúklingur með rjómasveppasósu
440 Kalt hangikjöt með kartöflusalati
80 Skyr með rjómablandi
95 Ávaxtaskál með rjóma
95 Rjómaís með perum og rjóma
Einnig ýmsir smáréttir
DV