Beðið eftir aðgerðum

Greinar

Þegar menn vilja ekki fást við vandamál, er þægilegast fyrir þá að segja, að vandamálið sé ekki til. Þegar forsætis- og fjármálaráðherra vilja ekki taka á verðbólgunni, er þægilegast fyrir þá að segja, að verðbólga sé ekki svo slæm og að lætin út af henni gangi út í öfgar.

Málgagn ríkisstjórnarinnar fékk um helgina himnasendingu í ráðgjafa Clintons Bandaríkjaforseta, sem sagði verðbólgu geta verið ágæta, að minnsta kosti ef hún færi ekki yfir 10%. Í sumum tilvikum gæti verið betra fyrir þróunarlönd að hafa hana meiri frekar en minni.

Ráðgjafinn var að vísu að tala um lönd, þar sem atvinnuleysi er margfalt meiri vandi en við höfum séð hér á landi síðustu sextíu árin. Hann var að tala um skipulega verðbólgu sem tæki í baráttu gegn atvinnuleysi í fátækum ríkjum, ekki um verðbólgu í löndum fullrar atvinnu.

Ef sérstaklega er fjallað um ríku löndin í heiminum, það er að segja í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu, eru allir sérfræðingar sammála um, að vont sé að hafa meiri verðbólgu en nágrannaríkin. Í öllum þróuðum löndum er lagzt af hörku gegn því, að verðbólga fari yfir 2%.

Svo hart var gengið fram í Evrópusambandinu, að ríki fengu ekki að taka þátt í sameiginlegum gjaldmiðli, nema þau kæmu verðbólgunni niður fyrir eðlileg vikmörk frá meðaltali. Ítalir náðu þessum eftirsótta árangri í tæka tíð, en Grikkir ekki fyrr en í annarri umferð.

Til þess að koma verðbólgunni niður á stig, sem talið er þolanlegt í ríku löndunum, var ráðizt í uppskurð á ríkiskerfinu, sparnaður hins opinbera aukinn og verklegum framkvæmdum frestað, opinberar skuldir greiddar niður og reynt að búa til svigrúm fyrir blómlegt atvinnulíf.

Með þessu er almennt talið, að mikill sigur hafi unnizt. Það er sams konar sigur og vannst hér á landi, þegar verðbólgu var komið niður í svipaðar tölur og í viðskiptalöndunum. Við þurftum enga ráðgjafa Clintons til að segja okkur, að þetta hafi verið okkur vond breyting.

Okkur er í fersku minni hvílíkur munur er á 10­20% verðbólgu annars vegar og 2­3% verðbólgu hins vegar. Vinnumarkaðurinn róaðist og vinnudeilur urðu fátíðari, menn fóru að geta hugsað til langs tíma. Ísland varð að þroskuðu viðskiptalandi í samfélagi auðugra ríkja.

Nú er verðbólgan hins vegar farin af stað aftur. Meðan hún er um og innan við 2% í alvörulöndunum, er hún hér komin upp í tölur á bilinu 5­7% og fer heldur vaxandi. Við þetta hefur rýrnað trú manna á verðgildi gjaldmiðilsins og margir eru farnir að losa sig við krónur.

Seðlabankinn hefur neyðzt til að kaupa krónur fyrir gjaldeyri til að hamla gegn áhlaupi á krónuna. Hann hefur hækkað og hækkað vexti til að sporna gegn þenslunni. Bankarnir hafa einu sinni haft forustu um, að verzlun með gjaldmiðla var hreinlega stöðvuð í tvær stundir.

Nú er komið að endimörkum þess, sem Seðlabankinn getur gert. Hann getur ekki endalaust hækkað vexti langt upp fyrir það, sem þekkist með þróuðum þjóðum. Hann getur ekki endalaust keypt krónur fyrir gjaldeyri. Og ekki dugar að stöðva gjaldeyrisviðskipti aftur og aftur.

Mánuðum saman hafa helztu málsaðilar, þar á meðal Seðlabankinn, hvatt ríkisstjórnina til að grípa til aðgerða til að stöðva þessa uggvænlegu þróun. Hún hefur verið hvött til að skera niður útgjöld, fresta opinberum framkvæmdum og draga úr öðrum umsvifum sínum.

Meðal þeirra, sem máli skipta í ríkisstjórninni, virðist hins vegar ekki vera áhugi á að verða við óskum um að standa vörð um festu og öryggi í peningabúskapnum.

Jónas Kristjánsson

DV