Búast má við, að Íslendingar geti valið milli sjónvarpsrása innan áratugar án tæknilegrar milligöngu opinberra einkaréttarhafa. Ör fjölgun gervihnatta Vestur-Evrópu mun kippa fótunum undan einokun íslenzka sjónvarpsins.
Í löndum Vestur-Evrópu er unnið að undirbúningi um tuttugu gervihnattakerfa, sem hvert um sig á að geta miðlað mörgum rásum sjónvarpsefnis. Sumir þessara hnatta munu geta miðlað efninu beint til neytenda án milligöngu stöðvar á landi.
Áhrifasvið þessara gervihnatta verður takmarkað. Ísland er svo afskekkt, að sendingar fæstra þeirra munu nást hér á landi. En þó eru líkur á, að Ísland lendi í útjaðri geislans frá að minnsta kosti einum eða tveimur þeirra.
Neytendur þurfa þá að koma sér upp heldur voldugra loftneti en þeir hafa nú, svipuðu loftneti og menn notuðu, þegar þeir reyndu að ná sendingum Keflavíkursjónvarpsins. Og allir munu hafa fjárhagslegt bolmagn til slíks.
Einangrunarsinnuð stjórnvöld geta reynt að banna loftnet af þessu tagi. En hætt er við, að lögregluaðgerðir mundu brotna á andstöðu neytenda eins og oft vill verða, þegar fólk kemur sér saman um að telja ákveðin lög ranglát og marklaus.
Íslenzkir neytendur munu því komast í beint samband við umheiminn án þess að þurfa að sæta forsjá manna, sem hafa aflað sér þekkingar á, hvað sé hollt fyrir menn að sjá og hvað ekki. Forsjársinnar hefðu gott af að gera sér grein fyrir þessu.
Í þessari skothríð gervihnatta hefur Nordsat, norræna sjónvarpshnattkerfið, vaknað til lífsins. Á þingi Norðurlandaráðs í síðasta mánuði kom fram öflugur og sumpart óvæntur stuðningur við samstarf um þessa hnetti.
Norskir stjórnmálamenn eru eindregnir fylgjendur Nordsat, enda telja þeir það ódýrustu leiðina til að koma sjónvarpi um allt land. Þá eru íslenzkir taldir fremur hlynntir Nordsat, þótt fæstir þeirra viti raunar mikið um það.
Danir segja fátt, enda munu þeir senn baða sig í tugum erlendra sjónvarpsrása. Í Svíþjóð og Finnlandi eru hatrammar deilur, sem í Svíþjóð blandast sérstökum hagsmunum vegna hins fyrirhugaða sænska gervihnattar, Tele-X.
Að öllu samanlögðu eru nú taldar betri líkur en áður á, að ráðherranefnd Norðurlanda komi sér saman um að leggja Nordsat fyrir þing Norðurlandaráðs í Helsinki í upphafi næsta árs. Yrði það þing þá tímamótaþing í norrænu samstarfi.
Oft er talað um, að norrænt samstarf sé pappírseyðsla, kjaftagangur og veizluhöld. En samkomulag um Nordsat mundi í einu vetfangi sýna fram á, að pappírinn, talið og veizlurnar hafi þó um síðir skilið eitthvað jákvætt eftir.
Helzti galli Nordsat er dæmigerður fyrir Norðurlönd. Gert er ráð fyrir, að Nirðir P. Njarðvík sitji í landstöðvum og skammti efnið frá hnettinum til neytenda. Þar á ofan þarf nýtt dreifikerfi, ef senda á út samtímis íslenzka sjónvarpinu.
Það bætir þó úr skák, að Nordsat lendir eins og íslenzka sjónvarpið í beinni samkeppni við erlendar rásir. Ritskoðurum og skömmtunarstjórum verður því mikill vandi á höndum, ef í ljós kemur, að allir horfa í aðra átt.
Æskilegt er, að norrænn hnöttur sendi hinar sjö norrænu sjónvarpsdagskrár beint til neytenda án milligöngu skömmtunarstjóra og kostnaðarsams kerfis á landi. Þá væri von á, að norræn menning héldi velli í óhjákvæmilegri alþjóðasamkeppni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið