Beitilandsstofnun

Greinar

Á móti 2000 hekturum, sem árlega eru klæddir gróðri hér á landi, tapast 3000 hektarar, þannig að árlegt heildartap á gróðri er um 1000 hektarar, einkum af völdum ofbeitar sauðfjár. Þetta minnir á fátæku löndin sunnan við Sahara í Afríku, þar sem eyðimörkin færist í aukana.

Þetta breytist ekki fyrr en raunveruleg landgræðslustofnun á vegum umhverfisráðuneytis kemur í stað beitilandsstofnunarinnar í Gunnarsholti, sem rekin er á vegum landbúnaðarráðuneytisins, er lítur á sig og stofnanir sínar sem hagsmunaaðila sauðfjárræktar.

Beitilandsstofnunin í Gunnarsholti notaði þjóðargjöfina frá 1974 að mestu til að gera bændum kleift að reka fleira sauðfé á fjall en afréttir hefðu annars þolað. Sauðféð hnappaðist á uppgræðslusvæðin eins og í rétt að hausti og át gjöfina nokkurn veginn jafnóðum.

Beitilandsstjórinn í Gunnarsholti hefur stutt þá, sem reyna að bera blak af sauðfénu. Hann hefur talað um gróðureyðingu af völdum eldgosa og ills árferðis, rétt eins og slíkt hafi ekki tíðkazt fyrir landnám, þegar gróður var tvöfalt víðáttumeiri en hann er núna.

Sumir trúa ekki, að landið hafi við landnám verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Sönnunargögn eru þó til fyrir því, að á landnámsöld var gert til kola á Kili, svo að þar hefur þá verið sæmilegt kjarr. Breytingin, sem varð við landnám, fólst í skógarhöggi og sauðfjárbeit

Beitilandsstofnunin hefur ekki heldur staðið sig við að varðveita friðlönd, sem henni hefur verið trúað fyrir. Hún hefur ekki höfðað mál gegn sauðfjármönnum, sem rifu landgræðslugirðingu á Auðkúluheiði, né þeim, sem hafa beitt friðaða Austurafrétt á vorin.

Stofnanir á borð við Landgræðslu ríkisins nýtast ekki til landgræðslu, af því að þær taka meinta hagsmuni landbúnaðarins alltaf fram fyrir hagsmuni þjóðarinnar. Og ekkert vit færist í umhverfismál, fyrr en þau verða leyst úr álögum sauðfjárræktarráðuneytisins.

Íslenzkar heiðar geta aftur orðið blómlegar eins og þær voru við landnám. Það sjáum við bezt á Hornströndum og Ströndum norðanverðum, sem hafa breytzt í gróðurvin við hvarf sauðfjárræktar úr héraði. Það þarf einfaldlega að friða heiðarnar fyrir þjóðaróvininum.

Brýnast er að loka viðkvæmum móbergssvæðum, svo sem afréttum Gullbringu- og Kjósarsýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Þingeyjarsýslu, en einnig er of mikið álag á afréttum Skagafjarðar og Húnavatnssýslna. Loka þarf svæðum til að þau nái að gróa.

Enginn árangur er hins vegar af þeirri stefnu Alþingis, landbúnaðarráðuneytis og beitilandsstofnunarinnar í Gunnarsholti að dreifa fræi og áburði úr lofti yfir opin afréttarsvæði. Sauðféð étur þetta allt. Þannig fór forgörðum hin mikla þjóðargjöf frá 1974.

Af þessum ástæðum er brýnt, að landgræðsla losni úr álögum landbúnaðarráðuneytisins og öðlist frelsi í umhverfisráðuneyti, þar sem hagsmunir sökudólgsins eru ekki hafðir í hávegum. Að öðrum kosti er marklaust að hafa sérstakt umhverfisráðuneyti á Íslandi.

Því miður virðist svo sem hin nýja ríkisstjórn muni engu breyta í betra horf í þessu efni. Heiðursmannasamkomulag flokksformanna nær skammt, þegar illvígir hagsmunir eru í húfi. Þess vegna mun málið verða kjaftað í hel með því að setja það í nefnd á nefnd ofan.

1000 hektara gróðurtapi á ári verður ekki snúið í 1000 hektara gróðurauka á ári fyrr en eftir að landgræðsla ríkisins hefur verið frelsuð úr klóm sauðfjárræktar.

Jónas Kristjánsson

DV