Beizkt var það ekki

Veitingar

Eftir nokkurt hlé kom ég við á Primavera í gærkvöldi. Fínn matstaður af ítölsku kyni með frönsku ívafi. Borðdúkar og munnþurkur eru hvítar eins og vera ber. Þjónusta skóluð og vel að sér um alla hluti. Eini falstónninn var sjávarréttasúpa með of eindregnu hvítlauksbragði. Saltfiskbollur voru tæpast betri en plokkfiskur í Nóatúni. Bezt forrétta var salat með parmaskinku og trönuberjum. Betri voru aðalréttir: lambahryggvöðvi með kóngasveppasósu og bezt var hrossalund með bláberjum og grappa. Tiramisu í eftirrétt var gott, en espresso kaffi var tæpast nógu beizkt. Forréttir 2.630 kr, aðal 3.780 kr.