Ben Hur og Khartoum

Greinar

Charlton Heston lék söguhetjuna í tveimur gömlum bíómyndum, er segja mér, að ekkert sé að gerast í heiminum núna, sem ekki hafi gerzt áður í bíómyndum. Í annarri myndinni berst hann við Osama bin Laden, en í hinni við George W. Bush. Þetta voru myndirnar Khartoum frá 1966 og Ben Hur frá 1959.

Ágætur dálkahöfundur Boston Globe, H.D.S. Greenway, á þann heiður að hafa bent á þessar bíómyndir Hestons. Ég hitti hann stundum í gamla daga í International Press Institute, en nú er hann hættur eins og ég, skrifar bara grein í gamla blaðið sitt einu sinni í viku, yfirleitt óvenjulega grein.

Í greininni um Heston fór Greenway þá leið að vekja athygli á, að hann fái ekki frið fyrir pólitík, þótt hann flýi inn í heim kvikmyndanna. Mér finnst aftur á móti skemmtilegt, að við skulum stundum sjá gerendur heimsmála nútímans í hetjum gömlu bíómyndanna, sem sýndar voru fyrir nærri hálfri öld.

Í Khartoum leikur Charlton Heston hershöfðingjann Charles Gordon, sem er sendur upp Nílarfljót til að stríða við ofstækismanninn Mahdi, leikinn af Sir Laurence Olivier. Sá síðarnefndi starir með skegg og túrban beint í myndavélina eins og Osama bin Laden í myndbandi, sýndu á Al Jazeera.

“Við erum að berjast heilögu stríði gegn feitum og spilltum trúvillingum. Okkar stríð vill endurheimta lögmál og reglur Múhameðs spámanns, sem hefur krafizt þess, að fjöll og eyðimerkur skjálfi, borgir hrynji.” Þetta segir Laurence í myndinni, rétt eins og Osama bin Laden segir á myndbandinu.

Í Ben Hur er Charlton Heston kominn til Gyðingalands, þar sem hann leiðir uppreisn rétttrúaðra gegn þungu ofbeldi heimsveldis þess tíma, Rómarveldis. Fulltrúi þess er Stephen Boyd, sem leikur Massala, kominn til Gyðingalands til að klára verk, sem föður hans hafði mistekizt í fyrri herferð.

Við sjáum þar Írak í dag og Bush yngra. Aðstoðarmenn segja við Massala, að landið sé drukkið af trúarofstæki og hatist óskiljanlega mikið við rómverska hernámsliðið. “Annað hvort ertu með mér eða á móti mér”, segir hann við Heston/Ben Hur, sem eigi að síður rís upp til varna gegn Rómarveldi/USA.

Allt er afstætt í þessum heimi. Ef Ben Hur bíómyndin væri framleidd í vetur, mundi hún vera talin vera gagnrýni á Bandaríkin og lofgerð um þá, sem berjast gegn þeim af trúarástæðum og falla fyrir vopnum þeirra. Khartoum væri hins vegar talin lofgerð um krossferð gegn villutrúnni.

Í bíómyndum er allt auðvelt, menn halda með hetjunni gegn bófanum. En í veruleikanum er allt afstætt. Hver er hetjan okkar. Er það Heston í Khartoum eða Heston í Ben Hur?

Jónas Kristjánsson

DV