Frú Berglaug er snyrtilega innréttuð matstofa í gömlu hornhúsi við Laugaveg 12. Gólfin og stiginn eru flott og útsýni er fínt af neðri hæð á regndrepa túrista á Laugavegsvafri. Þjónusta er notaleg, en músíkin er of hátt stillt. Matseðill er stuttur og ferðamannalegur og maturinn er fallega upp settur. Þarna er kjötsúpa og plokkfiskur og girnilegt humarsalat (1690 kr). Ýmislegt var gott í hráefnum, humar fínn og hráskinka frábær. En matreiðslan var sumpart úti að aka. Skötuselur og kartöflur (2290 kr) úr frysti og örbylgju voru engin draumafæða. Betri matstaðir eru til á svæðinu, sem betur fer.