Betra en ekki neitt

Greinar

Stofnanir landbúnaðarins hafa gefið út bækling, þar sem endurbirt er röð baráttuglaðra blaðaauglýsinga þeirra með frekari skýringum og rökstuðningi. Bæklingurinn er fróðlegur fyrir þá sök, að hann sýnir, hvað stendur eftir af röksemdafærslu á vegum þessara stofnana.

Hálfur sannleikur er í hluta þessa málflutnings landbúnaðarkerfisins. Til dæmis er rétt, að beitarálag hefur minnkað við fækkun sauðfjár. Ósagt er hins vegar, að álagið er of mikið á afréttum móbergssvæðanna, þar sem landeyðing er meiri en landgræðsla enn þann dag í dag.

Ekki er hægt að segja, að sauðfjárrækt sé komin í sátt við landið, fyrr en lögð hefur verið niður beit á afréttum móbergssvæðanna og snúið hefur verið vörn í sókn í landgræðslu þessara svæða. Fram að þeim tíma verður landbúnaðurinn áfram sakaður um landeyðingu.

Það er líka hálfur sannleikur, að beingreiðslur fari ekki beint í vasa bænda. Þeir þurfa að greiða ýmsan kostnað við búreksturinn og þurfa því meiri tekjur en sem nemur launum einum. Ósagt er hins vegar, að í þessu felst einmitt margumtöluð verðmætabrennsla.

Gallinn við landbúnaðinn er, að hann er þrefalt dýrari í rekstri en atvinnuleysisbætur mundu vera. Hann þarf til dæmis að nota mikinn gjaldeyri í kaup á vélum, tækjum og kjarnfóðri og mikið af innlendu fjármagni til að halda uppi stofnunum á borð við Áburðarverksmiðjuna.

Röng er sú fullyrðing bæklingsins, að ríkið hafi dregið úr stuðningi við landbúnaðinn. Samkvæmt bæklingnum nemur stuðningurinn 6,8% ríkisútgjalda á þessu ári, en nam 6,7% árið 1986 og 6,9% árið 1987. Stuðningurinn sveiflast til, en hefur ekki minnkað síðustu sjö árin.

Röng er sú fullyrðing bæklingsins, að niðurgreiðslur séu fyrst og fremst neytendum til hagsbóta. Þær beinast nefnilega ekki að þeim matvælum, sem ódýrust eru og henta bezt fátæku fólki, heldur að þeim tiltölulega litla og dýra hluta, sem framleiddur er af landbúnaðinum.

Einnig er ruglað saman þeim hluta matarreiknings heimilanna, sem notaður er til að greiða innlenda búvöru og innflutta, þar á meðal kornvöru og margs konar pakkavöru. Lækkun matarreiknings vegna lækkunar innfluttrar búvöru er ekki landbúnaðinum að þakka.

Gagnrýnendur landbúnaðarstefnunnar segja, að hún kosti neytendur og skattgreiðendur 17-19 milljarða á hverju ári, annars vegar í hömlum á innflutningi erlendrar búvöru og hins vegar í útgjöldum ríkissjóðs til landbúnaðar. Í bæklingnum er ekki reynt að svara þessu.

Í rauninni hefur landbúnaðarráðuneytið viðurkennt 19 milljarða árlegan stuðning með tilboði sínu til alþjóðlega tollamálaklúbbsins GATT. Þegar stofnanir landbúnaðarins þurfa að verja innflutningshömlur, hentar það þeim að nota réttar tölur, sem þær hafna í annan tíma.

Gagnrýnendur landbúnaðarstefnunnar segja, að leggja beri niður sérstök afskipti ríkisins af landbúnaði, þar á meðal innflutningshöft á kostnað neytenda og greiðslur úr ríkissjóði á kostnað skattgreiðenda. Í bæklingi landbúnaðarins er lítið reynt að rökræða þetta atriði.

Þó er þar bent á, að atvinnuleysi kosti líka peninga. Það er að vísu rétt, en það kostar aðeins brot af því, sem landbúnaðurinn kostar núna. Hefðbundinn landbúnaður á Íslandi er í rauninni dulbúið atvinnuleysi, sem er þrefalt dýrara en venjulegt atvinnuleysi mundi vera.

Auglýsingaröð og útskýringabæklingur stofnana landbúnaðarins eru ekki merkilegt innlegg í umræðuna um landbúnaðinn, en eigi að síður betra en ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

DV