BBC-fréttastofan segir, að Afganistan sé tifandi tímasprengja. Í opnu bréfi hafa áttatíu hjálparstofnanir hvatt Sameinuðu þjóðirnar til að efla öryggi borgaranna, því að margir íbúar séu farnir að tala um, að ástandið hafi verið betra á valdadögum Talibana. Hjálparstofnanir þora ekki að senda menn út fyrir höfuðborgina Kabúl. Út um þúfur hafa farið ráðagerðir um að efla leppstjórn Bandaríkjanna og 70.000 manna herlið á þess vegum. Fá ríki vilja taka að sér kostnað og fyrirhöfn við að reyna að koma á lögum og reglu í landinu eftir innrás Bandaríkjanna. Ætlunin er að afhenda Atlantshafsbandalaginu kaleikinn í ágúst. Hlutverkið verður ekki til þess fallið að auka traust manna á bandalagi, sem er á fallanda fæti á heimavígstöðvum.