Betri í bridge en pólitík

Greinar

Sigur íslenzkra bridgemanna í heimsmeistarakeppninni í Japan sýnir, hvað hægt er að gera með því að hafa viðfangsefnið í fókus. Keppnismennirnir eru ekki eðlisbetri spilamenn en þeir voru í sumar, en hafa fetað markvissa þjálfunarbraut, sem færði þeim mismuninn.

Heimsmeistararnir hættu í haust að spila bridge, sem þeir kunnu fyrir. Í stað þess lögðu þeir áherzlu á að byggja upp aðra hluti, svo sem líkamlegt úthald, jákvæðan liðsanda og harðan aga af hálfu liðsstjórans. Þannig mættu þeir til leiks án hins fræga Akkillesarhæls.

Hvort sem fólk spilar bridge í frístundum eða ekki, þá gleðst það yfir sigrinum. Atburðir af þessu tagi eru kærkomnir fámennri þjóð, sem er að reyna að sýna sjálfri sér og öðrum fram á, að hún hafi tilverurétt út af fyrir sig. Við fáum hreinlega meira sjálfstraust.

Bridge er leikur, sem krefst gífurlegrar einbeitingar, rétt eins og skákin. Það er ánægjulegt, að einmitt þessir tveir leikir eða tvær listgreinar hafa fest rætur í hugum Íslendinga. Það bendir til, að margir Íslendingar geti einbeitt sér, geti sett verkefni sín í fókus.

Við höfum á ýmsum öðrum sviðum séð ánægjuleg merki einbeitingar. Í atvinnulífi og tækni hefur borið á nýbreytni og uppfinningum, sem hafa skilað góðum arði. Dæmi um það eru hin fjölmörgu tölvuforrit, sem byggjast á einbeitingu og hugviti margra í greininni.

Ein grein hefur setið eftir hér á landi. Það er pólitíkin, sem sjaldan er í fókus. Það er í henni, að framleiddar eru hvítar bækur með endemis þvaðri um ímyndaða stefnu og starfsáætlun ríkisstjórna, sem stangast fullkomlega á við raunveruleg verk þeirra frá degi til dags.

Í pólitíkinni leyfa menn sér að skrifa með annarri hendi hvítar bækur um, að nú eigi að stórefla neytendamál, en efla með hinni hendinni einokun í flugi og skera niður fjármagn til neytendamála um tugi milljóna. Þetta er lítið, einfalt og gott dæmi um íslenzka pólitík.

Í pólitíkinni standa menn andspænis samdrætti í sameiginlegri tekjuöflun landsmanna og byrja á að gefa sér sem fjárlagaforsendu, að útgjöld til landbúnaðar þurfi að aukast út yfir allan þjófabálk, af því að lögmaður á ríkiskontór segi fáránlegan búvörusamning friðhelgan.

Í pólitíkinni byggist tilvera heils stjórnmálaflokks á yfirlýsingum um nýskipan veiðileyfa í sjávarútvegi, brottfall búvörusamninga og flutning umhverfisverkefna frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis, sem svo er alls ekki fylgt eftir í ríkisstjórn.

Samt er engan veginn svo, að hæfileikar Íslendinga liggi svo eindregið í skák og bridge og tölvum, að ekkert sé afgangs fyrir pólitík. Sem dæmi má nefna, að góðir hlutir hafa verið gerðir í utanríkismálum, svo sem frumkvæði í viðurkenningu á fullveldi Eystrasaltsríkja.

Þá hefur verið haldið vel á málum Íslands í viðræðum við stóra kúgunaraflið í Evrópu. Í viðræðum við Evrópubandalagið um þáttöku Íslands í evrópsku efnahagssvæði hefur ekki verið vikið frá kröfum um sjálfsforræði og auðlindaforræði okkar og um gagnkvæman hag.

Góðir spilamenn í pólítík mundu bæta um betur og setja í fókus, hvað við ætlumst fyrir utan evrópska efnahagssvæðisins; hvernig hægt sé að leggja niður verðmætabrennslu í landbúnaði og í atvinnuvegasjóðum; og hvernig íslenzkt þjóðfélag verði samkeppnishæft.

Ef við værum eins góð í pólitík og við erum í bridge, mundum við ekki gefa út fókuslausar hvítbækur, fullar af þvaðri um góð áform, sem varða veginn til vítis.

Jónas Kristjánsson

DV